Fannst látin 43 tímum síðar

Gigi Wu.
Gigi Wu. Facebook

Kona sem er þekkt fjallgöngukona í Taívan, ekki síst fyrir að birta oft myndir af sér á sundfatnaði á toppi fjalla, er látin eftir að hafa fallið niður í gljúfur á laugardag. Ekki tókst að ná til hennar fyrr en 43 tímum síðar.

Gigi Wu, sem var ein á ferð, náði að hringja í neyðarlínuna á laugardag og greina frá því hvar hún væri en vegna þess hversu slæmt veður var á þessum slóðum var ekki hægt að koma henni til bjargar fyrr en í gær. Þegar hún hringdi í gegnum gervihnattasíma í neyðarlínuna á laugardag sagðist hún ekki geta hreyft sig eftir fallið 30 metra. Er talið að hún hafi látist úr ofkælingu. Wu var 36 ára gömul. Hún á sér marga fylgjendur á samfélagsmiðlum og hafa margir sett inn samúðarkveðjur á Faceobok.

Wu var ein á ferð í fjalllendi Yushan-þjóðgarðsins í Taívan þegar hún lést en hún var þrautþjálfuð í fjallamennsku og þekkt fyrir að gæta fyllstu varúðar í fjallgöngum og klettaklifri. 

BBC segir að fram hafi komið í fjölmiðlum í Taívan að veðrið hafi verið mjög slæmt og því ekki hægt að senda þyrlu eftir henni. Í þrígang var það reynt án árangurs. Að lokum fóru björgunarmenn fótgangandi og sóttu hana en fundu hana látna í gær. Frost hafði verið á þessum slóðum. 

Gigi Wu.
Gigi Wu. Facebook

Í viðtali í fyrra útskýrði Wu ástæðuna fyrir því hvers vegna hún birti myndir af sér á bikini á fjallstoppum. Að hennar sögn tapaði hún veðmáli við vin og refsingin var sú að birta slíkar myndir á samfélagsmiðlum. Wu sagði í viðtalinu að hún hefði lokið 100 tindum og verið í bikini á 97 þeirra á undanförnum fjórum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert