Skila fornri töflu sem stolið var í Írak

Taflan er um 3.000 ára gömul og upprunin í Babýloníu.
Taflan er um 3.000 ára gömul og upprunin í Babýloníu. AFP

Þrjú þúsund ára gömul steintafla frá Babýloníu, sem álög eru sögð hvíla á, verður flutt frá Bretlandi og til Íraks þaðan sem henni var stolið í Íraksstríðinu. Samkvæmt áletrun á henni mun bölvun leggjast á þann sem eyðileggur hana.

Hartwig Fischer, forstjóri Breska þjóðminjasafnsins, afhenti íraska sendiherranum, Salih Husain Ali, hina ómetanlegu töflu við athöfn í dag eftir að sérfræðingar safnsins höfðu staðfest uppruna hennar. „Þetta er mjög mikilvægur gripur í menningarsögu Íraks,“ sagði Fischer og dásamaði störf landamæravarðanna sem uppgötvuðu svik við innflutning töflunnar á Heathrow-flugvelli árið 2012. Pappírarnir sem framvísað var á flugvellinum reyndust falsaðir.

„Þeir lögðu hald á gripinn þegar þeir fundu hann og nú nokkrum árum síðar, eftir mikla vinnu, höfum við getað komið honum til skila,“ sagði Michael Ellis, menningarmálaráðherra Bretlands. „Þetta er mjög mikilvægt augnablik.“

Hartwig Fischer, Salih Husain Ali, Michael Ellis og Alistair Burt …
Hartwig Fischer, Salih Husain Ali, Michael Ellis og Alistair Burt grandskoða töfluna fornu. AFP

Enn er ekki ljóst hvernig töflunni var komið frá Írak „en við teljum að henni hafi verið stolið fyrir um það bil fimmtán árum á meðan átök stóðu í landinu,“ sagði ráðherrann.

Á töflunni er áletrun sem staðfestir gjöf Nebúkadnesar I. Babýloníukonungs á landi til eins þegna sinna fyrir framúrskarandi þjónustu. 

Safnvörðurinn Jonathan Taylor segir hræðileg álög hvíla á töflunni. Á hvern þann sem reyni að komast yfir landið eða eyðileggja töfluna leggist bölvun. 

Innan við 200 sambærilegir gripir hafa varðveist og taflan sem nú hefur verið afhent íröskum yfirvöldum er nokkuð skemmd sem varð til þess að langan tíma tók að staðfesta uppruna hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert