Indiana Jones og Dora Maar

Arthur Brand með Picasso-verkið Le Portrait de Dora Maar eða …
Arthur Brand með Picasso-verkið Le Portrait de Dora Maar eða Buste de femme (Dora Maar). AFP

Hollenskur spæjari, sem er þekktur undir heitinu Indiana Jones listaheimsins, fann nýverið málverk eftir Pablo Picasso sem var stolið fyrir 20 árum.  

Verkið Le Portrait de Dora Maar, sem einnig gengur undir heitinu Buste de femme (Dora Maar), var málað árið 1938 og metið á 25 milljónir evra. Því var stolið af snekkju í höfninni d’Antibes en það var í eigu sádiarabísks auðmanns. 

Arthur Brand segir að hann hafi afhent tryggingafélagi verkið fyrr í mánuðinum en undanfarin fjögur ár hefur Brand leitað verksins. Franska lögreglan, sem hafði leitað verksins, sem áður hékk á heimili spænska myndlistarmannsins, árangurslaust í tvo áratugi taldi að það myndi aldrei finnast á ný. 

Brand elti slóð verksins um undirheima Hollands og fyrir tíu dögum mættu tveir milligöngumenn með verkið á heimili Brands í Amsterdam. 

„Þeir voru með Picasso, sem er nú metinn á 25 milljónir evra, með sér, vafinn inn í lak og í svörtum ruslapoka,“ segir Brand í viðtali við AFP.

Í fyrra komst Brand í fréttir fjölmiðla um allan heim eftir að hafa endurheimt 1.600 ára gamla mósaíkmynd og komið henni á sinn stað á Kýpur. Árið 2015 fann hann tvær bronsstyttur sem Joseph Thorak, sem var högglistamaður á vegum nasista, gerði fyrir Hitler af hestum hans. 

Þegar Picasso-verkinu var stolið á sínum tíma var það metið á sjö milljónir Bandaríkjadala. Þegar Brand fékk nasasjón af að verkið væri að finna í Hollandi hóf hann leitina. Í ljós kom að verkið hafði gengið manna á milli í undirheimum Hollands og notað sem skiptimynt í fíkniefnaviðskiptum sem og vopnasölu. Í raun vissi Brand ekki hvort þetta væri umrætt verk af Doru Maar, sem var ástkona Picasso árum saman, eða eitthvert annað verk. 

En svo kom sannleikurinn í ljós, að þetta væri verk sem var stolið af snekkju milljarðamæringsins Abdul Mohsen Abdulmalik Al-Sheikh.

Brand setti af stað orðróm um að hann væri á höttunum eftir Buste de Femme (Dora Maar) og í byrjun mars skilaði orðrómurinn árangri. 

Tveir fulltrúar hollensks kaupsýslumanns höfðu samband við hann og sögðu að viðskiptavinur þeirra væri með málverkið. Sá hélt að um lögleg viðskipti væri að ræða og hefur lögreglan bæði í Hollandi og Frakklandi ákveðið að ákæra hann ekki en alls hefur verkið skipt um hendur að minnsta kosti tíu sinnum síðan því var stolið árið 2009. 

Þegar Brand fékk verkið í hendur hengdi hann það upp á vegg íbúðar sinnar í Amsterdam. „Þar með varð íbúð mín sú verðmætasta í Amsterdam í einn dag,“ segir Brand og hlær. Daginn eftir kom sérfræðingur í verkum Picasso til hans frá New York og staðfesti að um Picasso væri að ræða.

Frétt Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert