Í kröggum mestalla sína merkisævi

David Lough flutti erindi hér á landi um síðustu helgi …
David Lough flutti erindi hér á landi um síðustu helgi um fjármál Churchills, en forsætisráðherrann breski var í kröggum mestalla ævi sína. mbl.is/Eggert

„Með því að skoða fjármál Churchills fræðumst við meira um hann sem einstakling,“ segir David Lough, höfundur bókarinnar No More Champagne, þar sem rakin eru fjárhagsvandræði Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta í seinna stríði.

Lough flutti erindi hér á landi um síðustu helgi þar sem hann fór yfir vandræði Churchills á fjármálasviðinu, en hann glímdi við erfiðleika nær alla ævi, þrátt fyrir að vera afkomandi hertogans af Marlborough. Var erindið vel sótt og gerður góður rómur að.

Lough rekur áhuga sinn á Churchill aftur til barnæsku. „Þegar Churchill lést árið 1965 var ég með sögukennara sem varaði okkur við að trúa öllu lofinu sem var hlaðið á hann, Churchill hefði bara verið „gamall rómantískur kjaftaskur (e. windbag)“. Og ég fór heim til ömmu minnar og notaði nákvæmlega þessi orð. Hún varð ævareið og las mér pistilinn um afrek Churchills,“ segir Lough og bætir við að hann hafi allar götur síðan haft mikinn áhuga á manninum.

Lough er sagnfræðingur að mennt, en varði megninu af starfsævi sinni við eignastýringu einstaklinga, og segir hann að sá bakgrunnur hafi gefið sér einstakt færi á að kanna þennan þátt ævi Churchills, sem aðrir sagnfræðingar hefðu ekki tök eða áhuga á að skoða nánar. „Þeir nefna vandræðin stöku sinnum, en tengja þau aldrei nánar við sögu hans,“ segir Lough.

Um það leyti sem Lough fór að huga að eftirlaunaaldrinum fékk hann þá hugmynd að kanna hvort upplýsingar um fjármál Churchills væru til í skjalasafni hans. „Ég áttaði mig á því að ef ég gæti séð bankaupplýsingar hans, þá gæti ég ekki bara séð hver öll sagan væri á bak við fjármálin, heldur einnig fengið nánari sýn á manneskjuna að baki, hvaða ákvarðanir hann tók í lífinu og þess háttar.“ Hann heimsótti því skjalasafn Churchills, sem staðsett er í Cambridge, og komst að því að flest gögnin sem hann vantaði væru opin og aðgengileg, en hins vegar dreifð vítt og breitt um safnið. Það tók því talsverða vinnu að ná yfirsýn yfir efnið. 

Laginn við að skulda

Segja má að rót fjármálavandræða Churchills hafi hafist þegar í æsku. „Hann fæddist inn í breska aðalskerfið, og fjölskylda hertoga þurfti að sýna ákveðinn klassa. Þau voru vön mjög fínum fötum, fínum samgöngumátum og að borða vel og urðu fyrir sýndar sakir að halda uppi þeim lífsstíl, jafnvel þó að fjölskyldan hefði ekki eignir til þess að halda honum uppi,“ segir Lough.

Churchill vandist því að lifa hátt og fannst eins og hann ætti skilið að lifa þannig. „Þegar peningarnir kláruðust fann hann alltaf einhvern sem gat bjargað málunum fyrir sig,“ segir Lough og bætir við að Churchill hafi í raun orðið gjaldþrota eða því sem næst sjö sinnum á lífsleiðinni. „En hann fann alltaf einhvern, og hann valdi björgunarmenn sína af mikilli kostgæfni, sem er viss hæfileiki,“ segir Lough, og bætir við að þeir sem lánuðu Churchill til að bjarga honum úr kröggum hafi verið mjög skilningsríkir og þolinmóðir lánardrottnar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert