Baneitrað loft liggur yfir Sydney

Baneitrað loft liggur eins og teppi yfir Sydney í Ástralíu vegna illviðráðanlegra skógarelda sem geisa á austurströnd landsins. Skólabörnum er fyrirskipað að halda sig innandyra og samgöngur hafa farið úr skorðum. Í fjölmörgum hafnarborgum sér fólk varla handa sinna skil og ertandi reykurinn leikur íbúa grátt. 

Skógareldarnir, sem loga á ótal stöðum, hafa alls lagt um 319 þúsund hektara undir sig, þar af er meirihluti innan þjóðgarðs.  

Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, hefur ekki viljað tjá sig um ástandið í nokkrar vikur. Hins vegar tjáði hann sig í dag þar sem hann varði ríkisstjórn sína, sem hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi, sérstaklega fyrir að reyna ekki að manna stöður slökkviliðsfólks en sjálfboðaliðar sjá að stærstum hluta um slökkvistarf.   

Fyrrverandi slökkviliðsstjórar hafa meðal annars gagnrýnt Morrison fyrir að láta hjá líða að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða vegna loftslagsbreytinga. 

Síðasta mánuð hafa verið miklir þurrkar í landinu. Nóvembermánuður var sá þurrasti á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Ástralíu. Bændur hafa verið uggandi yfir stöðunni og óttast vatnsskort. 

Slökkviliðsmenn í Brisbane tilkynntu nýlega að um 1.000 lítrum af vatni hefði verið stolið úr vatnstönkum á slökkvistöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert