Eldur kom upp í flaggskipi Rússa

Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov.
Rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov. AFP

Eldur kom upp í flaggskipi rússneska sjóhersins, flugmóðurskipinu Admiral Kuznetsov, í morgun í skipasmíðastöð í norðurhluta Rússlands.

Fram kemur í frétt AFP að viðhald hafi farið fram á flugmóðurskipinu þegar eldurinn kom upp með þeim afleiðingum að tíu manns slösuðust.

Sex af hinum slösuðu eru alvarlega slasaðir. Talið er að rekja megi eldinn til rafsuðu. Rúmlega 400 manns voru um borð þegar hann kom upp.

Samkvæmt rússneskum miðlum varð um 600 fermetra svæði eldinum að bráð. Er haft eftir heimildarmönnum að eldsvoðinn hafi verið „mjög alvarlegur“.

Flugmóðurskipið var tekið í notkun árið 1995. Viðhaldinu á því átti að ljúka í lok næsta árs og var gert ráð fyrir að skipið kæmi til starfa aftur 2021.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert