Læstu sjúklinga með elliglöp inni

Næturgisting sumra vistmanna með elliglöp á Presteheia-umönnunarheimilinu í Kristiansand. Óvænt …
Næturgisting sumra vistmanna með elliglöp á Presteheia-umönnunarheimilinu í Kristiansand. Óvænt heimsókn eftirlitsmanna frá fylkismanninum í Agder leiddi í ljós að þarna voru eldri vistmenn læstir inn, stundum heilu næturnar, án salernisaðstöðu, rúms, rennandi vatns eða öryggishnapps. Dósent í hjúkrunarfræði segir innilokun sérstaklega þungbæra fólki með elliglöp sem sé við það að missa tökin á tilveru sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er grafalvarlegt lögbrot. Ekkert í lögum heimilar notkun herbergja á borð við þetta,“ segir Fredrik Dahl, upplýsingafulltrúi fylkismannsins í Agder í Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Umræðuefnið er svört skýrsla fylkismannsins í Agder í Suður-Noregi um eftirlitsheimsókn sem starfsfólk hans kom óboðað í á Presteheia-umönnunarheimilið í Kristiansand. Varð eftirlitshópurinn þess þá áskynja að starfsfólkið læsti vistmenn með elliglöp inni í berstrípuðu herbergi yfir heilu næturnar þegar þeir fengu köst. Með köstum er hér túlkuð norskan utagerende sem skilgreinist sem tjáning innri umbrota, kvíða og vanlíðunar óháð kringumstæðum.

Vistmennirnir voru þá gjarnan læstir inni í herberginu, sem sést á myndinni, án salernisaðstöðu, rúms, rennandi vatns, öryggishnapps eða nokkurs annars sem þó ætti að teljast sjálfsagt á stofnun sem kennir sig við umönnun sjúkra og aldraðra. Eftir að dyrum hafði verið lokað og læst átti sá eða sú sem í herberginu dvaldi ekki annað sjónarhorn á umheiminn en mjóa þverglugga efst á veggjunum og örsmátt gægjugat sem reyndar horfði aðeins inn í herbergið og var ætlað starfsfólki til að sjá inn í herbergið.

Að sögn Dahl hefur starfsfólk fylkismannsskrifstofunnar aldrei rekist á nokkuð þessu líkt í eftirlitsstörfum sínum. 

Sagði starfsfólkið hafa upplifað erfiða tíma

Tilgangur heimsóknar fylkismannsembættisins var að ganga úr skugga um hvort lyfjagjöf heimilisins samræmdist reglum auk þess hvernig svokölluð frávik (n. avvik) á heimilinu væru meðhöndluð, hvernig notkun geðlyfja og róandi lyfja og faglegu eftirliti væri háttað.

Anne Sofie Hellebø, forstöðukona heimilisins, sagði starfsfólkið hafa upplifað erfiða tíma þegar NRK spurði hverju þessi meðferð sætti. Það hefði sætt „hótunum og ofbeldi“ af hendi hinna öldruðu auk þess sem „við búum ekki við nægilega gott lagaumhverfi eða úrræði til að ráða við það þegar þessar aðstæður koma upp“.

Hellebø segir yfirmenn heimilisins hafa rætt málið við aðstandendur vistmanna og beðist innilega afsökunar á því sem hafi gerst um leið og hún játar að háttsemin gagnvart eldri borgurunum hafi viðgengist um tíma.

Umboðsmaður sjúklinga í Agder, Gunhild Solberg, fagnar því að flett hafi verið ofan af gæsluherberginu á Presteheia-heimilinu og segir viðbrögð fylkismannsembættisins lofsverð.

76 ára kona með geðhvarfasýki læsti inni

Kari Brodtkorb, dósent í hjúkrunarfræði við Háskólann í Agder, fordæmir vinnubrögðin á Presteheia og segir innilokun geta valdið þeim sem þjást af elliglöpum áfalli. „Þeim getur orðið mjög brugðið og þau upplifa þetta sem alvarlegt inngrip. Hluti elliglapa er að fólk missir tökin á tilverunni. Þá þarfnast það öruggs umhverfis þar sem hlúð er að því,“ segir Brodtkorb við NRK.

Herbergið á Presteheia-heimilinu er ekki fyrsta dæmið í Kristiansand um að eldra fólk sé læst inni, árið 2015 fjallaði dagblaðið Fædrelandsvennen um mál Else Ragnhild Berntsen, 76 ára gamallar geðhvarfasjúkrar konu sem studdist við göngugrind og starfsfólk umönnunarheimilisins Vågsbygdtunet læsti ítrekað inni í litlu rými þar sem hún fékk innilokunarkennd og ærðist af ótta. Fylkislæknirinn í Vest-Agder og yfirlæknir sveitarfélagsins Kristiansand gripu þá inn í en yfirmenn heimilisins tóku til varna og sögðu Berntsen viljandi hafa ekið göngugrind sinni á hjúkrunarfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert