Norðmenn kveðja stríðshetju

Ragnar Ulstein tekur í hönd Hákonar krónprins á samkomu til …
Ragnar Ulstein tekur í hönd Hákonar krónprins á samkomu til minningar um fallna hermenn norsku andspyrnuhreyfingarinnar. Ljósmynd/Norski herinn

Það var þriðjudaginn 3. desember sem Ragnar Leif Ulstein safnaðist á vit feðra sinna, 99 ára gamall. Með honum kveðja Norðmenn eina þekktustu stríðshetju sína frá því fimm ára ógnartímabili sem Noregur var undir járnhæl innrásarhers nasista í síðari heimsstyjöldinni.

Einhverjum hefði þótt það næg hetjudáð að taka þátt í þremur stóraðgerðum þeirrar deildar norsku andspyrnuhreyfingarinnar sem gekk undir nafninu Kompani Linge í Noregi styrjaldaráranna en Ulstein bætti um betur og gerðist eftir stríðið sagnfræðingur, blaðamaður og rithöfundur, eftir hann liggja rúmlega 20 bækur, flestar um Noreg í síðari heimsstyrjöldinni, en Ulstein lagði, eins og Ari fróði, mikla áherslu á að ræða ávallt við frumheimildamenn, þá sem sjálfir voru á staðnum og gátu sagt frá. Alls ræddi hann við 1.200 slíka heimildamenn við efnisöflun sína.

Kompani Linge, eða Norwegian Independent Company No. 1, skömmu eftir …
Kompani Linge, eða Norwegian Independent Company No. 1, skömmu eftir þjálfunina hjá bresku SOE-sérsveitinni, Lorentz Langaas liðsforingi kennir mönnum sínum að þrífa hríðskotabyssu. Ljósmynd/Norski herinn

Ulstein, sem fæddist í Ålesund 19. apríl 1920, rann blóðið til skyldunnar að verja fósturjörð sína í kjölfar innrásar þýsks hers vorið 1940. Árið 1941 hélt hann til Englands þar sem hópur Norðmanna gekkst undir þjálfun bresku sérsveitarinnar Special Operations Executive, SOE, þaðan sem hópurinn útskrifaðist undir heitinu Norwegian Independent Company No. 1 en varð síðar betur þekktur í Noregi undir heitinu Kompani Linge eftir kapteini Martin Linge, fyrsta stjórnanda deildarinnar og nokkuð þekktum leikara fyrir stríðið. Þjóðverjar skutu Linge til bana í Måløy-árásinni í Sognsæ og Firðafylki í desember 1941 og bera ekki færri en sjö götur í Noregi nafn hans.

Aðgerðin Vestige I

Ragnar Ulstein tók þátt í fjölda aðgerða með félögum sínum í Linge-sveitinni og varð sjálfur liðsforingi innan hennar. Innrásin í Reine og aðgerðin Siskin eru tvær annálaðar aðgerðir sem sveitin kom að eða stjórnaði en eftirminnilegust er vafalítið aðgerðin Vestige I þar sem Ulstein tókst með félögum sínum Harald Svindseth og Nils Fjeld að komast í skjóli nætur að þýska herflutningaskipinu Hartmut sem lá við akkeri úti fyrir Svelgen í Sognsæ og Firðafylki undir vökulu auga þýsks tundurspillis sem lá skammt frá.

Þremenningunum auðnaðist að festa öflugar sprengihleðslur við kinnunga Hartmut sem tímastilltar voru til að springa einum sólarhring síðar. Ekki vildi þó betur til en svo að hleðslurnar sprungu 45 mínútum síðar og höfðu Ulstein og félagar þá naumlega komist í örugga fjarlægð. Áhöfn Hartmut sá sitt óvænna, ræsti vélar og setti stefnuna að ströndinni þar sem skipið sökk á grunnsævi og marraði í hálfu kafi í mörg ár. Ulstein og þeir félagar komust undan og földu sig dögum saman í helli í Botnane á meðan þýskir hermenn leituðu árásarmannanna dyrum og dyngjum.

Tólfta herfylki norsku andspyrnuhreyfingarinnar Milorg, eða Militær organisasjon, gengur fylktu …
Tólfta herfylki norsku andspyrnuhreyfingarinnar Milorg, eða Militær organisasjon, gengur fylktu liði framan við konungshöllina í Ósló snemmárs 1945, undir lok styrjaldarinnar. Heimavarnaliðið, sem almennir borgarar skipuðu, kallaðist hins vegar Sivorg eða Sivile motstandsorganisasjonen. Ljósmynd/Anders Beer Wilse

Ulstein hlaut fjölda heiðursmerkja fyrir framgöngu sína með Kompani Linge, meðal annars Ólafsorðuna með tveimur eikargreinum, orðu Hákonar VII Noregskonungs og bresku hernaðarorðuna.

Meðal 22 bóka Ulstein eru tvær bækur um Kompani Linge-sveitina sem hann skrifaði með Erling Jensen og Per Ratvik.

Miðlaði frásögnum af pennafimi

Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra er meðal þeirra sem skrifa eftirmæli um Ragnar Ulstein og segir þar í auk annars:

„Ragnar Ulstein var andspyrnuhreyfingarmaður, blaðamaður og rithöfundur. Hann upplifði á eigin skinni einar mestu ögurstundir norskrar stríðssögu sem borðalagður stjórnandi Kompani Linge. Af pennafimi sinni miðlaði hann síðar frásögnum af Norðmönnum í stríði og hernámi sem byggðar voru á hans eigin rannsóknum. Honum var það mikils vert að koma þeim sögum frá sér.

Starf hans undir merkjum friðar og frelsis kastar síst rýrð á framgöngu hans undir merkjum andspyrnuhreyfingarinnar. Ragnar Ulstein hélt góðu sambandi við samfélag sagnfræðinga og samherja sína frá stríðstímum fram að hinstu stundu.“

NRK

NRK II (útförin í gær)

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert