Langvinsælasta myndin í bíó

Dwayne Johnson leikur aðalhlutverkið í Jumanji: The Next Level.
Dwayne Johnson leikur aðalhlutverkið í Jumanji: The Next Level. AFP

Kvikmyndin Jumanji: The Next Level var sú mynd sem flestir Bandaríkjamenn og Kanadabúar sáu í bíó frá fimmtudegi til laugardags. Alls voru seldir miðar á myndina fyrir rúmar 60 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 7,4 milljarða íslenskra króna.

Hér er hægt að lesa um myndina á vefnum Kvikmyndir

Frozen II er í öðru sæti listans en tekjur hennar voru rúmar 19 milljónir dala um helgina. Knives Out með Daniel Craig í aðalhlutverki er í þriðja sæti listans en ný mynd skipar fjórða sæti listans, Richard Jewell. Myndin fjallar um bandaríska öryggisvörðurinn Richard Jewell sem var ranglega ásakaður um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk á meðan Ólympíuleikunum í Atlanta stóð árið 1996. Hann fann fyrstur poka í Ólympíugarðinum sem sprengjan var falin í og aðstoðaði við að rýma næsta nágrenni.

Grunur rannsóknarlögreglu beindist að Jewell þegar nokkrir fyrrverandi samstarfsmenn hans bentu á hversu ofurkappsamur hann hefði venjulega verið á vakt sinni.

Töldu yfirmenn lögreglunnar á tímabili líklegt að hann hefði sjálfur komið sprengjunni fyrir til þess að verða síðan talin hetja fyrir að finna hana og koma í veg fyrir manntjón, en tveir menn biðu bana af völdum sprengingarinnar og 110 slösuðust. Myndin vakti töluverða umræðu þegar fréttist að þar væri ýjað að því að blaðakona hafi selt líkama sinn fyrir upplýsingar um málið. Clint Eastwood leikstýrir myndinni en aldrei áður hefur mynd í hans leikstjórn fengið jafn litla aðsókn á frumsýningarhelgi. Námu tekjurnar aðeins 5 milljónum dala. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 17. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert