Sest í helgan stein 102 ára og hyggur á ferðalög

Hér sést Bob Vollmer fyrir miðri mynd, en þessi mynd …
Hér sést Bob Vollmer fyrir miðri mynd, en þessi mynd er raunar frá því árið 2016, er hann var heiðraður af Eric Holcomb ríkisstjóra (t.v.) fyrir störf sín í þágu Indiana-ríkis. Twitter/Eric Holcomb

Bob Vollmer, elsti opinberi starfsmaður Indiana-ríkis í Bandaríkjunum, sér loks fram á að setjast í helgan stein. Eftir nærri sex áratugi í starfi sem landmælingamaður hefur hann gefið það út að síðasti dagur hans í starfi verði 6. febrúar, en Vollmer er orðinn 102 ára gamall.

Þetta vekur að sjálfsögðu athygli, enda ekki oft sem fólk nær að eiga svona langa starfsævi. Vollmer segir í samtali við staðarmiðil á vegum Fox News í ríkishöfuðborginni Indianapolis að læknar hafi sagt honum að hraust lungu hans skýri af hverju hann sé enn vinnufær og sprækur á þessum háa aldri.

Í samtali við Fox segir Vollmer enn fremur að hann ætli sér í ferðalög núna þegar vinnuferlinum er lokið, en hann var í bandaríska flotanum í síðari heimsstyrjöldinni, þá á þrítugsaldri. Nú ætlar hann sér að fara og heimsækja eyjar í Suður-Kyrrahafi sem hann heimsótti á stríðstímunum.

Hann segir að starf landmælingamanns hjá Indiana-ríki hafi ekki alltaf verið hættulaust, þar sem stundum reiðist fólk þegar það telji að störf hans geti haft áhrif á eignir þeirra, en landmælingamenn eru gjarnan kallaðir til þegar deilur eiga sér stað vegna landamerkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert