Tveir unglingar urðu fjölskyldum sínum að bana

AFP

Tveir unglingsdrengir í Utah- og Alabama-ríkjum í Bandaríkjunum eru grunaðir um að hafa drepið mæður sínar og systkini. Mál drengjanna virðast ekki vera tengd en þau áttu sér stað með nokkurra daga millibili. CNN greinir frá þessu.

Morðin í Utah áttu sér stað 17. janúar og voru fyrstu morðin í næstum tvo áratugi í borginni Grantsville. Nokkrum dögum síðar, 22. janúar, var unglingsdrengur í Alabama sakaður um að hafa myrt nokkra fjölskyldumeðlimi sína. 

Talið er að síðara tilvikið hafi átt sér stað með þeim hætti að 16 ára gamall unglingur, Landon Durham, hafi stungið 36 ára gamla móður sína og tvo þrettán ára bræður sína á heimili þeirra í borginni Munford. Þau létust öll af sárum sínum. Durham er ákærður sem fullorðinn einstaklingur.

Eftir árásina fór Durham í skólann og var handtekinn degi síðar. Óljóst er hvað Durham gekk til.

Skaut móður sína og þrjú systkini

Í tilfelli árásarinnar í Utah er einnig 16 ára gamall unglingsdrengur grunaður. Hann skaut móður sína og þrjú systkini eitt af öðru þegar þau komu heim. Þau létust öll. Hann réðst einnig á föður sinn og skaut hann í fótinn en faðir hans komst undan. 

Drengurinn hefur verið ákærður og er ekki með lögmann. Hann kemur fyrir dómara á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert