Norðmenn óttast kínverskt hrun

Preikestolen við Lysefjord í Rogaland, ekki langt frá Stavanger við …
Preikestolen við Lysefjord í Rogaland, ekki langt frá Stavanger við vesturströnd Noregs. Þangað upp gengu 94.523 gestir í ágústmánuði einum í fyrra, vafalítið nokkur þúsund Kínverjar. Norskir ferðaþjónustuaðilar neyðast nú til að láta skeika að sköpuðu eftir að kínversk stjórnvöld bönnuðu hópferðir frá Kína í gær um óákveðinn tíma vegna kórónafaraldursins. Mynd/Atli Steinn Guðmundsson

„Þetta er alveg nýtt fyrir okkur og mun hafa áhrif á fjölda fyrirtækja og ferðaþjónustuaðila hér á svæðinu,“ segir Elisabeth Dreyer, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Destination Lofoten í Norður-Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Umræðuefnið er bann kínverskra stjórnvalda við hópferðum þarlendra ferðamanna til annarra landa sem gildi tók í gær og fréttaveitan Bloomberg greindi fyrst frá en viðskiptamiðillinn Forbes og fleiri fjölmiðlar hafa í kjölfarið fjallað um.

Ástæða bannsins er hin skæða kórónaveira sem nú hefur orðið rúmlega hundrað manns að bana í Kína auk þess sem greint hefur verið frá á fimmta þúsund smituðum þar í landi.

Kínverski markaðurinn einn sá stærsti

Ferðavefsíðan Visit Norway fjallar um bannið og segir það hafa í för með sér að kínverskir ferðamenn sem eigi bókaðar hópferðir, en einnig einstaklingar með fyrirframbókaðar pakkaferðir, flug og hótel, sem bannið nær einnig til, komist nú hvorki lönd né strönd með tilheyrandi afleiðingum fyrir norska ferðaþjónustuaðila.

Skiljanlega eru sömu aðilar með böggum hildar yfir því skarði sem hugsanlega verður höggvið í ferðamannaiðnað landsins, kínverski markaðurinn er einn sá stærsti sem norsk ferðaþjónusta skiptir við, gistinætur Kínverja í janúar 2019 voru 10.000 og tímabilið febrúar til maí í fyrra voru þær 85.000, þar af 46.000 í maímánuði einum, samkvæmt því sem Ingunn Sakshaug, markaðsfulltrúi Asíu og nýrra markaða, segir í umfjöllun Visit Norway.

Meðal þeirra staða í Noregi sem kínversku gestirnir hafa sótt stíft er Lofoten-svæðið sem rómað er fyrir náttúrufegurð en þaðan má einnig virða fyrir sér annað sem mikla hrifningu vekur meðal Kínverjanna, en það eru norðurljósin sem erlendir gestir á Íslandi sækja ekki síður í.

400.000 Kínverjar árlega

Dreyer framkvæmdastjóri segir kínverskum ferðamönnum hafa fjölgað með hverju árinu þar norður frá. „Norðurljósaferðamennska og vetrarferðalög almennt eiga geysiauknum vinsældum að fagna,“ segir hún, „mikið til eru það ferðamenn frá fjarlægari löndum en einnig frá Evrópu.“

NRK ræddi einnig við Sakshaug, markaðsfulltrúann hjá Visit Norway, sem staðfestir fjölgun kínverskra ferðamanna, þeim hafi fjölgað um fjögur prósent til og með nóvember í fyrra miðað við árið á undan og áætlar hún að um 400.000 Kínverjar heimsæki Noreg árlega.

Hún vonast til að bann kínverskra stjórnvalda verði skammvinnt, afleiðingarnar gætu ellegar orðið umtalsverðar fyrir norska ferðaþjónustu enda hafa erindi um endurgreiðslur vegna afbókana þegar tekið að streyma til Noregs frá kínverskum ferðaskrifstofum.

CATS beiðast skilnings

Samtök um ferðaþjónustu í Kína, China Association of Travel Services (CATS), fara síður en svo eins og kettir kringum heitan graut um málefnið og hafa sent viðskiptavinum sínum, ferðaskrifstofum víða um heim, opið erindi sem lesa má hér, dagsett í fyrradag, og beiðast þess þar að kínverskum ferðaskrifstofum og -skipuleggjendum leyfist að afpanta hópferðir viðskiptavina sinna án þess að sæta refsingum í formi kostnaðar og gjalda svo afstýra megi fjöldagjaldþrotum í greininni.

Cecilie Nøstvik, framkvæmdastjóri Tromsø Safari, hefur að vísu ekki lesið bréfið en segir þó við NRK að hennar fyrirtæki muni hvað sem öðrum líður sýna erindinu skilning og gera sitt til að koma til móts við þá kínversku.

„Þetta eru sérstakar kringumstæður,“ segir Nøstvik, „við verðum bara að lifa með því sem hefur verið ákveðið,“ segir hún enn fremur og ber ef til vill vægari kvíðboga fyrir næstu mánuðum en margir norskir kollegar hennar þar sem höfuðmarkhópur Tromsø Safari eru þýskumælandi ferðalangar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert