„Ég get sent Trump 100 dali til að frysta“

Luo Huining er hér fyrir miðju. Hann gefur lítið fyrir …
Luo Huining er hér fyrir miðju. Hann gefur lítið fyrir refsiaðgerðirnar. AFP

Luo Huining, einn æðstu embættismanna Hong Kong, gerði í dag grín að refsiaðgerðum sem bandarísk stjórnvöld hyggjast beita ellefu hátt setta embættismenn sjálfsstjórnarhéraðsins vegna öryggislaga sem eru sögð fela í sér skert frelsi fyrir íbúa Hong Kong. Refsiaðgerðirnar felast m.a. í því að hald verði lagt á eignir embættismannanna í Bandaríkjunum og reikningar þeirra þar frystir. Luo segist ekki eiga neinar eignir erlendis og bauðst því til að senda Donald trump Bandaríkjaforseta 100 Bandaríkjadali svo hann gæti fryst þá. 

Á engar eignir erlendis

Luo er æðsti kínverski embættismaðurinn í Hong Kong. „Það að Bandaríkin hafi ákveðið að setja mig á lista yfir þá sem Bandaríkin beita refsiaðgerðum þýðir bara að ég hef gert það sem ætti að gera fyrir þjóðina og Hong Kong,“ sagði Luo í yfirlýsingu. 

„Er svona „refsiaðgerð“ ekki til einskis þar sem ég á engar eignir erlendis? Að sjálfsögðu get ég líka sent Trump 100 dali til að frysta.“

Luo er á meðal 11 hátt settra embættismanna Kínverja og Hong Kong sem standa frammi fyrir refsiaðgerðum Bandaríkjastjórnar. Viður­lög­un­um var beitt gegn þeim sem grafa und­an sjálf­stjórn Hong Kong, að sögn Steven Mnuchin, fjár­málaráðherra Banda­ríkj­anna.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert