Ýjar að tengslum heimavinnu og ölvunaraksturs

Vissara er að hafa allt sitt á þurru þegar lögreglan …
Vissara er að hafa allt sitt á þurru þegar lögreglan í Noregi tekur út ástand og hraða ökumanna. Lögregla segir akstur undir áhrifum hafa stóraukist í kórónuveirufaraldrinum og bendir meðal annars á heimavinnu sem orsakaþátt þar. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Fleiri en við hafa velt því fyrir sér hvort aukin vinna fólks heima leiði til aukinnar notkunar vímugjafa,“ segir Jon Steven Hasseldal, yfirmaður norsku vegalögreglunnar, Utrykningspolitiet, sérdeildar sem fer með umferðareftirlit á norskum vegum og heyrir undir ríkislögreglustjóra.

Ræðir Hasseldal þar við norska ríkisútvarpið NRK og vísar til umtalsverðrar fjölgunar ölvunaraksturstilfella milli ára og ber saman aprílmánuð í ár og apríl í fyrra, en fjölgunin nemur sjö prósentum að landsmeðaltali. Reyndar hefur tilfellum fækkað í fjórum af tólf lögregluumdæmum landsins, en á móti fjölgað svo um munar í öðrum, um 42% í Ósló, 35% í austurumdæminu og ein 75% í umdæmi Finnmerkur.

Mesti fjöldi í fyrra síðan 2002

Slær Hasseldal þann varnagla, að eingöngu sé um kenningu lögreglunnar að ræða, en slær því fram að aukin notkun vímugjafa í kórónuveirufaraldrinum skili sér út í umferðina og sé einn liður þess að mörgum þyki ef til vill freistandi að seilast í flöskuna þegar starfinu er sinnt við tölvuskjáinn heima í stofu og samskiptin við samstarfsfólkið fari fram um Teams, Zoom og önnur forrit.

Hasseldal segir lögregluna hafa rekið upp stór augu yfir tölfræði ársins í fyrra, þegar 10.300 ökumenn í Noregi fengu á sig kæru fyrir akstur undir áhrifum, fara þyrfti aftur um 18 ár, til 2002 frá árinu í fyrra að telja, til að finna viðlíka fjölda tilfella.

„Við vitum að akstur í vímu er algeng orsök margra umferðarslysa, svo eðlilega setur að okkur óhug við þessar tölur,“ segir yfirmaðurinn og bendir á að það sem af er þessu ári hafi 3.200 ökumenn þegar verið staðnir að akstri undir áhrifum.

Líkur á andláti 900-faldist

Elisabeth Fjellvang Kristoffersen, forstöðumaður samtakanna MA – Rusfri Trafikk sem berjast gegn akstri undir áhrifum, tekur undir með Hasseldal að tölurnar séu áhyggjuefni. „Þær eru það sannarlega. Sértu á aldrinum 18 – 24 ára og ekur með 0,5 prómill af vínanda í blóði 900-faldast líkurnar á að látast af slysförum,“ segir Kristoffersen.

Hún segir þá, sem lögreglan stöðvar, aðeins topp ísjakans og kveður fólk sem eigi allt lífið fram undan sýna hvað vítaverðast gáleysi í þessum efnum, flestir þeirra, sem staðnir eru að akstri undir áhrifum, séu á aldrinum 25 – 34 ára.

„Sums staðar í landinu þykir þessum aldurshópi ölvunarakstur ekkert tiltökumál,“ segir Kristoffersen og klykkir út með því að níu af hverjum tíu, sem teknir eru í vímu undir stýri, séu karlmenn.

NRK
TV2 (umfjöllun í janúar)
iFinnmark (aðsend grein Kristoffersen hjá MA – Rusfri Trafikk)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert