Þrettán manns látist í árásum Ísraelshers í dag

Útför þeirra sem létust í dag fór fram samdægurs, að …
Útför þeirra sem létust í dag fór fram samdægurs, að hætti múslima. Meðal þeirra þrettán sem létust, tengdust 10 þeirra fjölskylduböndum. AFP

Þrettán manns, þar af átta börn, létust í árásum Ísraelshers á Gaza-ströndina í dag. Alls hafa 139 látist á svæðinu síðan stríð braust út á mánudag, 130 Palestínumenn og níu Ísraelsmenn. Ríflega þúsund manns hafa særst, meirihluti þeirra íbúar Palestínu.

BBC greinir frá. 

Ísraelsher segir að Hamas-samtökin palestínsku hafi gert um 200 eldflaugaárásir í nótt og hæft íbúabyggð í borgunum Ashdod, Beersheba og Sderot. Herinn segist því hafa brugðist við með árásum á hernaðarlega mikilvægar byggingar Hamas.

Fréttamönnum AFP og AP á Gaza var gert að yfirgefa sameiginlega byggingu fjölmiðlanna tveggja á svæðinu vegna yfirvofandi loftárásar á svæðið. Forráðamenn byggingarinnar segja að þeim hafi verið gefin klukkustund til þess að rýma hana. Sú tilkynning barst fyrir um klukkustund, en Ísraelsher hefur ekki tjáð sig um yfirvofandi árás. 

AFP hefur eftir Muhammad Hadidi, fjögurra barna föður á Gaza, að hann hafi misst allt, konu og börn sín fjögur í árásum Ísraelshers. 

„Þau voru örugg á heimili sínu, þau báru ekki vopn og gerðu ekki eldflaugaárásir,“ segir Hadidi. Þau voru saman komin til þess að fagna lokum föstumánaðar múslima, Ramadan. Voru þau meðal þeirra þrettán sem létust í fyrrnefndri árás. 

Mótmælt á Austurvelli

Boðað hefur verið til mótmælafundar á Austurvelli vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir fundinum og segir í viðburðarlýsingu á facebook-viðburði fundarins að þess sé krafist að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael, þar til þjóðernishreinsunum Ísraela gegn Palestínumönnum linnir.

Þingmaður Samfylkingarinnar, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, mun halda ræðu á fundinum ásamt Falasteen Abu Libdeh.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert