Metfjöldi smita í Moskvu

Rússnesk yfirvöld hyggjast fjölga sjúkrarúmum í höfuðborginni Moskvu um 7.000 …
Rússnesk yfirvöld hyggjast fjölga sjúkrarúmum í höfuðborginni Moskvu um 7.000 en metfjöldi Covid-smita mældist í borginni síðasta sólarhringinn. AFP

9.120 ný smit hafa greinst síðasta sólarhringinn í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Er það nýr metfjöldi smita, samkvæmt rússneskum yfirvöldum.

Fyrra met í smitfjölda var sett fyrir aðeins tveimur vikum þegar 3.000 manns greindust með veiruna.

Nýjustu tilfelli smita í landinu eru af hinu bráðsmitandi Delta-afbrigði veirunnar, sem fyrst varð vart á Indlandi, og er útlit fyrir að mikill fjöldi smitaðra einstaklinga muni þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Rússland í sjötta sæti

Til að takast á við fjölda nýrra smita verður sjúkrarúmum í borginni fjölgað um 7.000 eða úr 17.000 í 24.000, segir Anastasía Rakova, varaborgarstjóri Moskvu, í fréttatilkynningu.

Í upphafi faraldursins smituðust um 5,3 milljónir manna af veirunni í landinu, þar af var meira en helmingur smitanna í Moskvu.

Þetta setur Rússland í sjötta sæti yfir þau lönd sem hafa hæstan smitfjölda í heiminum öllum, samkvæmt fréttastofunni AFP.

Nærri 90% tilfelli smita í landinu má rekja til Delta-afbrigðisins, segir Sergei Sobjanin, borgarstjóri Moskvu.

Sóttvarnaaðgerðir hertar á ný

Sóttvarnaaðgerðir í höfuðborginni hafa því verið hertar á ný, að sögn borgarstjórans.

Í baráttunni gegn faraldrinum höfðu rússnesk yfirvöld treyst á bóluefnin sín fjögur, Spútnik V, EpiVacCorona, CoviVac og Spútnik Light. Vantraust íbúa til bóluefnanna hefur þó valdið lélegri aðsókn í bólusetningu í borginni.

Þrátt fyrir að hafa hrundið af stað bólusetningarátaki sínu þar í landi í desember á síðasta ári hafa aðeins 19 milljónir af 146 milljónum íbúa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, samkvæmt tölfræðigögnum af vefsíðunni Gogov.

Niðurstöður nýlegrar könnunar sýna að 60% rússa hyggjast ekki láta bólusetja sig.

Borgarstjóri Moskvu setti þó á bólusetningarskyldu fyrir þá íbúa sem vinna í þjónustugeiranum í Rússlandi á miðvikudag, með það að stefnu að um 60% íbúa verði fullbólusett fyrir 15. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert