Ómíkron komið til Argentínu

Forseti Argentínu, Alberto Fernandéz.
Forseti Argentínu, Alberto Fernandéz. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Argentínu tilkynntu fyrr í dag að fyrsta jákvæða sýnið af Ómíkron-afbrigðinu hafi greinst þar í landi. Sá sem smitaðist hafði verið í Suður-Afríku nýlega en viðkomandi var fullbólusettur og hafði áður smitast af veirunni.

Sá smitaði hafði verið í vinnuferð í Suður-Afríku fyrir rúmri viku. Hann greindist neikvæður bæði við brottför frá Suður-Afríku og við heimkomu í Argentínu. Hann fór síðar í annað próf þar sem komið hafði í ljós að fólk sem hann umgekkst í Afríku hafi síðar greinst smitað.

Í því prófi greindist hann loks jákvæður og við raðgreiningu kom á daginn að um var að ræða Ómíkron-afbrigðið.

Fjórir einstaklingar voru settir í fyrirbyggjandi sóttkví, og eru enn í sóttkví þrátt fyrir að hafa fengið neikvætt út úr fyrstu skimunum. Yfirvöld í Argentínu biðla til fólks þar í landi að fara afar varlega og huga áfram að persónubundnum sóttvörnum.

Hröð útbreiðsla

Nú eru tvær vikur liðnar frá því að Ómíkron-afbrigði veirunnar fannst í fyrsta sinn í Suður-Afríku. Það hefur nú greinst í yfir 40 löndum víða um heim.

Af þeim 45 milljónum sem búa í Argentínu hafa 5,3 milljónir manna smitast af veirunni. Þá hafa rúmlega 116 þúsund manns látið lífið vegna sýkingar. Rúmlega tveir þriðju þjóðarinnar eru fullbólusett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert