Forseti Suður-Afríku sakaður um spillingu

Suður-afríski forsetinn Cyril Ramaphosa.
Suður-afríski forsetinn Cyril Ramaphosa. AFP/Justin Tallis

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, er nú í klandri vegna rannsóknar sjálfstæðrar þingnefndar. Samkvæmt nefndinni bendir ýmislegt til þess að Ramaphosa hafi reynt að leyna því að háum fjárhæðum af földu fé hefði verið stolið af búgarði hans.

The Guardian greinir frá því að forsetinn hafi átt að standa fyrir svörum í þinginu í dag en hann frestaði því og sagðist þurfa tíma til þess að velta fyrir sér tímasetninguna á ásökunum nefndarinnar. 

David Mabuza varaforseti hætti líka við ávarp sem hann átti að flytja í dag. 

Gengi suður-afríska gjaldmiðilsins, rands, hefur fallið í virði í kjölfar fréttanna um óstöðugleika innan ríkisstjórnarinnar. 

Peningaþvætti og brot á gjaldeyrislögum

Ramaphosa varð forseti árið 2019 en hann hefur verið ásakaður um að hafa reynt að leyna því að háum fjárhæðum af földu fé hefði verið stolið af búgarði hans árið 2020. Forsetinn hefði því gerst sekur um peningaþvætti og brot á gjaldeyrislögum.

Ramaphosa neitar ásökunum og hvatti lögreglu til að framkvæma sína eigin sjálfstæðu rannsókn.

Örlög forsetans ráðast líklegast í kvöld þar sem flokkur hans, Afríska þjóðarráðið, fundar um vantrausttillögu á hendur Ramaphosa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert