Rússar banna vinsæla fréttasíðu

Pútín Rússlandsforseti fyrr í vikunni.
Pútín Rússlandsforseti fyrr í vikunni. AFP/Mikhail Klimentyev

Rússneskir saksóknarar hafa bannað Meduza, sem er vinsæl og sjálfstæð fréttasíða á rússnesku, og segja hana ógn við öryggi Rússlands.

Rússnesk stjórnvöld hafa skorið upp herör gegn fjölmiðlum sem þeir telja óhliðholla sér eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sendi herlið inn í Úkraínu í febrúar í fyrra.

Meduza var stofnuð árið 2014 og er með bækistöðvar í Lettlandi til að koma í veg fyrir ritskoðun Rússa.

„Óæskileg“ síða

Í dag sagði embætti ríkissaksóknara í Rússlandi að vefsíðan væri „óæskileg“ og jók þar með þrýsting á eigendur hennar.

Samkvæmt lögum um óæskileg fyrirtæki geta Rússar sem eiga samskipti við síðuna, hvort sem það eru blaðamenn eða lesendur, átt yfir höfði sér þunga sekt eða jafnvel sex ára fangelsisdóm.

Frá því að Pútín réðst inn í Úkraínu hefur öllum einkareknum fjölmiðlum í Rússlandi verið lokað eða þeir hafa hætt starfsemi.

Aðgangur að vefsíðum fjölmiðla sem eru starfræktir í öðrum löndum, eins og raunin er með Meduza, hefur verið takmarkaður. Fréttasíðan var árið 2021 skilgreind af Rússum sem „erlendur fulltrúi“. Þessi merkimiði sem margir tengja við „óvin fólksins“ á tímum Sovétríkjanna, hefur á undanförnum árum ítrekað verið notaður gegn stjórnarandstæðingum, blaðamönnum og aðgerðasinnum í Rússlandi.

Í gær úrskurðaði dómstóll í Moskvu að elstu mannréttindastofnun Rússlands, Moscow Helskinki Group, skyldi lokað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert