Unglingur vann 5,1 milljarð í lottó

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP/Brandon Bell

Kanadískur unglingur var með heppnina með sér þegar að hann ákvað að fjárfesta í sínum fyrsta lottómiða. Það er óhætt að segja að ákvörðunin hafi reynst afdrifarík en miðinn skilaði fyrsta vinningi sem nam 48 milljónum kanadískra dala, eða því sem nemur 5,1 milljarð íslenskra króna.

Hin átján ára Juliette Lamour, eigandi vinningsmiðans og nú milljarðamæringur (samkvæmt íslenskum skilningi), er yngsta manneskjan í sögu Kanada til að vinna svona stóran vinning.

Hún stefnir á að ferðast til útlanda með fjölskyldi sinni í sumarfríinu en kveðst þó ekki ætla að eyða öllu strax. Mun hún ráðfæra sig um framhaldið við fjármálaráðgjafa sinn sem vill svo til að er einnig faðir hennar. BBC greinir frá.

Hafði gleymt miðakaupunum

„Ég trúi því enn þá ekki að ég hafi dottið í lukkupottinn með kaupum á mínum fyrsta lottómiða,“ segir Juliette, sem hafði gleymt miðakaupunum þar til að hún heyrði í fréttunum að vinningsmiðinn hefði verið keyptur í heimabænum hennar.

Þegar hún fór svo að athuga í gegnum app í símanum hvort að miðinn hennar hefði reynst sá rétti birtust orðin „Stór vinningshafi“ á skjánum hennar. 

„Samstarfsfélagi minn hneig niður, hann trúði þessu ekki,“ sagði Juliette. „Hann byrjaði að öskra, reyndar byrjuðu allir að öskra að ég hefði unnið 48 milljónir.“

Yfirmaður Juliette gaf henni í kjölfarið leyfi til að hætta snemma í vinnunni en eftir að hafa ráðfært sig við móður sína ákvað hún þó að klára vaktina.

Vill fjárfesta

Juliette hyggst nú fjárfesta peningnum skynsamlega og mun hún gera það í samráði við föður sinn sem er jafnramt hennar helsti fjármálaráðgjafi, eins og áður kom fram. Besta ráðið til þessa sem hann hefur gefið henni er að öllum líkindum að kaupa miðann.

Stærsti draumur Juliette er að verða læknir og stefnir hún á að nýta peninginn í að komast skuldlaust í gegnum námið. Miðað við fjárhæðina sem að hún vann má áætla að það takist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert