Vísað úr landi fyrir nektarmynd á helgu fjalli

Mount Agung er hæsta fjall Balí.
Mount Agung er hæsta fjall Balí. AFP/Sonny Tumbelaka

Rússneskum karlmanni hefur verið vísað úr Indónesíu eftir að hafa afklæðst á toppi heilags fjalls á eyjunni Balí. 

BBC greinir frá því að mynd af manninum með nærbuxurnar á hælunum hafi farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla í síðustu viku. 

Maðurinn, sem kallar sig Yuri, hefur beðist afsökunar á athæfinu en samt sem áður er honum bannað að koma aftur til Indónesíu í að minnsta kosti sex mánuði.

Engin afsökun

Yfirvöld á Balí hafa að undanförnu aukið eftirlit með ferðamönnum sem sýna ósæmilega hegðun á eyjunni. 

Myndin af Yuri var tekinn á Mount Agung, sem er hæsta fjall Balí. Hindúar á eyjunni trúa því að guðirnir búi á fjallinu. 

Fulltrúi lögreglunnar á eyjunni sagði Yuri ekki bera neina virðingu fyrir menningu íbúa og að hegðun hans sé óafsakanleg.

Yuri birti myndskeið á Instagram þar sem hann baðst afsökunar og sagði atvikið undirstrika fáfræði hans. 

Hann tók síðar þátt í trúarathöfn þar sem að fjallið var „hreinsað“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert