Hafa tryggt fjármagn út maí

Philippe Lazzarini, yfirmaður UNRWA, segir stöðuna ekki eins dramtíska og …
Philippe Lazzarini, yfirmaður UNRWA, segir stöðuna ekki eins dramtíska og áður. AFP/Fabrice Coffrini

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) hefur tryggt sér fjármagn til þess að halda úti starfsemi út maí á þessu ári. 

Philippe Lazzarini, yfirmaður UNRWA, staðfesti þetta fyrr í dag. 

UNRWA hefur átt í erfiðleikum með að tryggja sér fjármagn eftir að Ísrael sakaði tólf af 30 þúsund starfsmönnum þeirra um að hafa tengst árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Ísrael þann 7. október þar sem um 1.160 manns voru drepnir. 

Í kjölfarið frystu ýmsar þjóðir greiðslur til samtakanna, þar á meðal Ísland sem hóf greiðslur að nýju til samtakanna í síðustu viku.

Töldu starfsemina ekki lifa út mars

Lazzarini varaði við því í síðasta mánuði að samtökin gætu hugsanlega ekki haldið úti starfsemi út mars en eftir að fjöldi þjóða, þar á meðal Spánn, Kanada og Ástralía, hóf greiðslur til samtakanna að nýju hefur ástandið skánað til muna. 

„Í dag er ástandið ekki eins dramatískt,“ sagði Lazzarini. 

Hann varaði þó við því að eins og staðan væri núna lifðu samtökin aðeins einn mánuð í einu en tók þó fram að þau hefðu tryggt sér fjármagn út maímánuð á þessu ári. 

Lazzarini lét þessi orð falla á fundi sínum við utanríkismálanefnd Sviss fyrr í dag. Hann sótti fundinn til að svara spurningum nefndarinnar um ásakanir Ísraels á hendur stofnuninni og til þess að hvetja Sviss til þess að hefja greiðslur að nýju til UNRWA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert