ESB vill 40 milljarða frá Norðmönnum

Ef Norðmenn ætla sér að fá aðgang að innri markaði Evrópusambandsins frá árinu 2004 þurfa þeir að greiða rúmlega 40 milljarða króna til sambandsins, að því er fram kemur á norska fréttavefnum Nettavisen í dag. Norðmenn segja þetta mun hærri upphæð en nokkurn hefði órað fyrir.

Rök ESB með þessum kröfum eru að með stækkun sambandsins fái EFTA-ríkin aðgang að mun stærri markaði og því sé eðlilegt að þau taki þátt í að byggja þann markað upp.

Evrópusambandið undirbýr nú að taka inn tíu nýjar þjóðir, en EFTA-ríkin Noregur, Liechtenstein og Ísland standa utan við Evrópusambandið og hafa ekki sótt um aðild að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert