Formóðirin líklega frá Tansaníu eða Eþíópíu

Niðurstöður nýrra DNA-prófa benda til þess að Afríku-Eva, formóðir alls mannkyns og var uppi fyrir 150.000 árum, hafi búið í Tansaníu eða Eþíópíu, að því er segir í frétt BBC. DNA-rannsóknin leiddi í ljós að elstu erfðaefnin finnast í Austur-Afríkubúum, einkum meðal ættbálkanna Sandawe, Burunge, Gorowaa og Datog sem allir eru í Tansaníu.

Mikil breidd í kjarnsýru hvatberum reyndist vera í mismunandi einstaklingum í þessum ættbálkum. Hvatberarnir erfast einungis frá móður. Því eldri sem ættbálkurinn er, því meiri breidd er í erfðaefnum.

„Þau sýna mjög djúpar, gamlar erfðir þar sem breiddin er mjög mikil. Þau virðast vera elstu ættir sem fundist hafa í Afríku fram til þessa,“ segir Dr. Sarah Tishkoff hjá Háskólanum í Maryland í Bandaríkjunum en hún stýrði rannsókninni.

Hin svonefnda Afríku-Eva býr yfir hinum fornu hvatberum í erfðamenginu sem geymir möguleikann á öllum þeim fjölbreytileika sem við sjáum hjá mannkyninu í dag.

Dr. Spencer Wells, erfðafræðingur og rithöfundur, segir niðurstöðurnar í samræmi við það sem reiknað hafi verið með. „Allar vísbendingar benda til þess að vagga mannkyns sé í Austur-Afríku,“ segir Wells. Þá segir hann nýju gögnin passa vel við fornleifafundi sem leitt hafi í ljós að nútímamaðurinn og dýr af mannætt hafi lengi búið í Austur-Afríku.

Ulf Gyllensten, efnasambandalíffræðingur og prófessor við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð, vildi þó ekki kveða jafn fast að orði. „Ég væri ekki hissa ef rétt reyndist að dr. Tishkoff hefði fundið elstu ættirnar þarna en ég held að við séum rétt að gára yfirborðið,“ segir Gyllensten. Hann segir rannsóknir í Afríku enn of skammt á veg komnar til að unnt sé að fá skýra mynd af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert