Óttast öryggi í aldurhnignum byggingum Sellafields

Írsk stjórnvöld hafa óskað eftir því að Bretar ábyrgist öryggi í byggingum kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield, að því er Martin Cullen, umhverfisráðherra Írlands, sagði í dag. „Ég tel að hættan sem stafar af starfseminni í Sellafield hafi aukist með aldri bygginganna og hnignunar þeirra, sem og búnaðarins,“ segir Cullen í yfirlýsingu sem gefin var út í Dublin.

Cullen segist hafa rætt málið við breska kollega sinn, Margaret Beckett, á fundi þeirra í Lundúnum fyrr í dag. Einkum hefur Cullen áhyggjur af öryggi í byggingu sem notuð er til að geyma geislavirkan úrgang.

Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af losun geislavirks úrgangs frá vinnslu MOX-eldsneytis og hefur krafist þess að slíkri vinnslu verði hætt í Sellafield.

Cullen segir að ekkert réttlæti áframhaldandi starfsemi í Sellafield, hvorki efnahagslegir eða umhverfisþættir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert