Yfir 186 létust og 1000 særðust í Madrid

Lestarvagna sem sprungu í Madrid í morgun. Nú er ljóst …
Lestarvagna sem sprungu í Madrid í morgun. Nú er ljóst að 186 að minnsta kosti létu lífið og yfir 1000 særðust. AP

Heimildarmenn AFP fréttastofunnar í Madrid segja nú ljóst að 186 manns að minnsta kosti hafi látist og yfir 1000 særst í sprengingunum, sem urðu á þremur lestarstöðvum í borginni í morgun. Innanríkisráðherra Spánar sagði að 13 sprengjum hefði verið komið fyrir og 10 þeirra hefðu sprungið. Svo virðist sem sprengjurnar hafi verið sprengdar með fjarstýringum en allar sprungu þær nánast á sama tíma, klukkan 7:30 að spænskum tíma. Spænsk stjórnvöld segja engan vafa leika á því að ETA, vígasamtök baskneskra aðskilnaðarsinna, hafi átt hlut að máli og útilokaði José María Aznar, forsætisráðherra, að nokkrar viðræður yrðu teknar upp við samtökin.

„Það kemur ekki til greina að taka upp samningaviðræður við þessa morðingja sem hafa svo oft valdið dauða um allan Spán," sagði Aznar í yfirlýsingu. „Aðeins með staðfestu getum við stöðvað þessar árásir," sagði Aznar, sem komst lífs af þegar ETA reyndi að ráða hann af dögum með bílasprengju árið 1995 þegar hann var leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Lögreglumenn, slökkviliðsmenn og bráðaliðar segja að hryllingurinn þar sem sprengjurnar sprungu hafi verið ólýsanlegur. Útlimir hafi legið eins og hráviði á lestarpöllunum og þúsundir manna, þar á meðal fjöldi skólabarna, hafi verið á stjórnlausum flótta. „Þetta var slátrun," sagði Juan Redondo, eftirlitsmaður hjá slökkviliði Madridar. „Þetta eru hörmungar af því tagi sem varla er hægt að hugsa um."

Látnir og alvarlega særðir voru fluttir á brott á börum en þeir sem höfðu fengið minniháttar skurði eða skrámur sátu á brautarstöðinni og grétu.

Redondo sagðist hafa séð að minnsta kosti 70 lík á brautarpallinum á El Pozo brautarstöðinni þar sem tvær sprengjur sprungu. „Þetta var eins og brautarpallur dauðans," sagði hann og bætti við að sækja hefði þurft eitt lík upp á þak lestarstöðvarinnar. „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt áður. Það var mjög erfitt að sækja líkin. Við vissum ekki hvað við áttum að taka með."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert