Sýklavopnaverksmiðjur "voru aldrei til"

Formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings sagði á sunnudag að meintar hreyfanlegar sýklavopnaverksmiðjur Íraksstjórnar Saddams Husseins hefðu að öllum líkindum "aldrei verið til" og gagnrýndi harðlega vinnubrögð leyniþjónustunnar í aðdraganda Íraksstríðsins.

Nefndarformaðurinn, Pat Roberts, er repúblikani frá Kansas og er þekktur fyrir að vera almennt mikill stuðningsmaður CIA og ríkisstjórnar George W. Bush forseta, en hann sagði að það hvernig gallaðar upplýsingar leyniþjónustunnar um meintar færanlegar sýklavopnaverskmiðjur Íraka hefðu verið notaðar hefði verið "niðurlægjandi fyrir alla".

Roberts lét þessi orð falla eftir að Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, beindi í vikulokin í fyrsta sinn berorðri gagnrýni að bandarísku leyniþjónustunni fyrir að hafa látið honum í té það sem nú hefði komið í ljós að voru gallaðar upplýsingar, sem hann notaði til að réttlæta innrásina í Írak.

Powell sagði að "áhrifamest" af ásökunum þeim sem hann bar á ráðamenn í Írak í fyrirlestri sínum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 5. febrúar 2003 hefði verið sú að þeir réðu yfir leynilegum sýklavopnaverksmiðjum, földum í gámum sem fluttir væru á milli staða á vörubílspöllum eða járnbrautarvögnum. Þessi ásökun hefði greinilega byggzt á vafasömum upplýsingum frá leyniþjónustunni. Skoraði ráðherrann á rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings sem nú er að kafa ofan í aðdraganda Íraksstríðsins að skoða hvernig þessar gölluðu upplýsingar voru fengnar.

Þessi ummæli Powells eru kúvending frá fyrri ummælum hans um málið; hann hafði áður aðeins viðurkennt að sérfræðinga greindi á um áreiðanleika upplýsinganna, en hafði aldrei gengið svo langt að gagnrýna leyniþjónustuna berum orðum eða vefengja gögnin frá henni.

Washington. Los Angeles Times.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert