Solana og Ahern nefndir sem líklegir arftakar Prodis

Javier Solana er, líkt og fleiri, volgur fyrir embætti forseta …
Javier Solana er, líkt og fleiri, volgur fyrir embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB. AP

Eftir að fundi Evrópusambandsins lauk í síðustu viku án þess að samkomulag næðist um eftirmann Romanos Prodis, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, leita nú leiðtogar í ESB að nöfnun sem ekki hafa verið áður nefnd í tengslum við embættið. Þeir sem nú hafa verið nefndir sem hugsanlegir kandídatar í æðstu stöðu ESB eru forsætisráðherra Írlands og yfirmaður utanríkismála hjá sambandinu.

Írskir fjölmiðlar hafa hampað Berti Ahern forsætisráðherra sem hugsanlegum eftirmanni Prodis eftir að hann gaf í skyn í sjónvarpsviðtali um helgina að hann kynni að gefa kost á sér þegar hann sagðist ekki vera í framboði „enn sem komið er“.

Ekki hefur verið hefð fyrir því að einhverjir yfirlýstir frambjóðendur séu til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB heldur en samkomulagi náð um nýjan forseta með stífum samningaviðræðum á lokuðum fundum í hinum ýmsu höfuðborgum í Evrópu.

Solana volgur

Ahern hefur fullyrt að hann ætli ekki að hætta í núverandi embætti, líkt og annar hugsanlegur arftaki Prodis, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar. Sumum þykir Javier Solana, sem fer með utanríkismálin í ESB, vera álitlegur kostur. „Það er fólk sem gæti leyst þetta betur af hendi en ég, en ef eining myndast hjá pólitískum leiðtogum ESB um að biðja mig um þetta, þá væri afar erfitt fyrir mig að neita,“ sagði Solana á fundi með blaðamönnum í strandbænum Sitges á Spáni.

Í dag fullyrti hann hins vegar að hann væri ekki í framboði. „Það er nýbúið að gera aðgerð á mér,“ sagði Solana og benti á hægra hnéð á sér og bætti við: „svo ég get ekki tekið þátt í neinu kapphlaupi.“ Talskona hans, Cristina Gallach, sagði hins vegar að hann væri reiðubúinn að þjóna ESB væri hann til kallaður.

Evrópusambandið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert