Hillary mun ekki bjóða sig fram 2008 ef Kerry vinnur nú

John Kerry veifar til ljósmyndara þar sem hann hjólar Esplanade …
John Kerry veifar til ljósmyndara þar sem hann hjólar Esplanade í Boston. AP

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gaf til kynna í dag að kona hans, Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmaður, muni ekki bjóða sig fram til forseta á næstu átta árum að minnsta kosti ef John Kerry, frambjóðandi demókrata, fer með sigur af hólmi í forsetakosningunum í vetur.

„Við ætlum að veita John Kerry stuðning. Vinni hann nú þá munum við reyna að aðstoða hann aftur eftir fjögur ár," sagði Clinton í París í dag en hann er þar til að kynna nýútkomna sjálfsævisögu sína. „Eftir átta ár héðan í frá, hver veit? Vilji hún bjóða sig fram mun ég að sjálfsögðu styðja hana. Hún er afar fær. Ég tel mig geta dæmt um hverjir eru hæfir stjórnmálamenn og hún er sú hæfasta sem ég hef kynnst."

Clinton sagði að Hillary hefði heitið því að sitja út sex ára kjörtímabil sitt sem öldungadeildarþingmaður fyrir New York en hún var kosin á Bandaríkjaþing árið 2000. „Annað er ekki til umræðu."

Clinton sagði að þau hjónin myndu bæði ávarpa flokksþing Demókrataflokksins sem hefst á mánudag í Boston í Massachusetts en þar verður Kerry útnefndur formlega sem forsetaefni flokksins og John Edwards sem varaforsetaefni.

Clinton sagði, að þótt auðvelt væri að vanmeta Kerry sem stjórnmálamann væri hann mjög hæfur og yrði án efa góður forseti. Þá hrósaði hann Edwards fyrir að hafa óvenjulega næma tilfinningu fyrir tilfinningu venjulegra Bandaríkjamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert