Rannsókn: Myndi bjarga fjölda mannslífa að færri börnum væri ekið í skólann

mbl.is

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar breskrar rannsóknar myndu mun færri deyja í umferðarslysum ef minna væri um það að börnum sé ekið í skólann. Hátt í sjö þúsund manns farast árlega í Bretlandi í bílslysum sem verða á háannatíma, þ. á m. 200 börn, að því er tryggingafélagið More Than segir.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins.

Í rannsókninni kom einnig í ljós, að undanfarinn áratug hefur orðið 20% aukning á því að börnum sé ekið í skólann. Segir More Than að ef þetta verði minnkað um 10% muni dauðsföllum í umferðarslysum fækka um 190 ár ári.

Þá segir félagið einnig að fyrirætlanir stjórnvalda um að láta skóla hefjast á mismunandi tímum á morgnana muni að líkindum einnig draga úr dauðsföllum í umferðinni.

David Pitt, yfirmaður bifreiðatrygginga hjá More Than, segir umferðina á háannatíma hafa aukist vegna þess að börnum sé ekið í skólann. Þetta hægi á umferðinni og auki hættuna á slysum.

„Það er vel skiljanlegt að fleiri börnum sé nú ekið í skólann,“ segir Pitt. „Foreldrar hafa núorðið meira að gera en nokkru sinni fyrr og umhugað um öryggi barnanna sinna. En afleiðingin kann í rauninni að vera sú, að hættan eykst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert