Handtekin fyrir að koma með skæri í skólann

Lögreglustjóri og skólastjóri í Philadelphiu í Bandaríkjunum hafa beðið móður tíu ára stúlku afsökunar á því að stúlkan skyldi handjárnuð og handtekin eftir að upp komst að hún væri með skæri í skólatöskunni sinni.

Þá fékk stúlkan að mæta aftur í skólann í dag, tveimur virkum dögum eftir atvikið, en upphaflega hafði henni verið vikið úr skólanum í fimm daga í refsingarskyni.

Sylvester Johnson lögreglustjóri segist hafa sagt Rose Jackson, móður stúlkunnar, að sér þætti mjög miður að dóttir hennar Porsche Brown, hafi verið flutt í járnum á lögreglustöðina en að hún hafi þó vissulega brotið öryggisreglur með því að koma með skæri, sem séu á lista yfir hugsanleg vopn, í skólann. Þá kvaðst hann hafa beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem stúlkan hefði orðið fyrir vegna þessa.

Skærin fundust í tösku barnsins er leitað var í töskum allra barnanna að einhverju sem hafði horfið af borði kennarans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert