Öryggiseftirlitið á Kastrup-flugvelli rýmt eftir sprengjubrandara farþega

Maðurinn var handtekinn og sektaður fyrir að hafa í hótunum.
Maðurinn var handtekinn og sektaður fyrir að hafa í hótunum. mbl.is

Salurinn þar sem öryggiseftirlit með farþegum fer fram á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn var rýmdur í dag þegar maður grínaðist með að hann væri með sprengju í handtöskunni sinni. Maðurinn, sem er 44 ára gamall Dani, hefur verið sektaður fyrir að hafa í hótunum.

„Hann stóð í röð með stóran svartan poka undir hendinni. Þegar hann kom að öryggishliðinu og átti að leggja pokann á færibandið sagði hann að þetta væri sprengja,“ segir Carsten Holder, lögreglumaður í Kaupmannahöfn.

Salurinn var rýmdur í fimmtán mínútur, að því er fram kemur í frétt Ritzau-fréttastofunnar.

Starfsmanninum við færibandið brá gríðarlega og þegar lögregla kom til að handtaka manninn áttaði hann sig á að hann hafði gengið of langt og flýtti sér að segja að hann hefði verið að grínast, að sögn Holder, sem bætir við að lögreglan geti ekki tekið svona löguðu sem gríni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert