Jústsjenko víkur ríkisstjórn Úkraínu frá

Viktor Jústsjenko og Júlía Tímótsjenkó.
Viktor Jústsjenko og Júlía Tímótsjenkó. AP

Viktor Jústsjenko, forseti Úkraínu, hefur vikið allri ríkisstjórn landsins frá, að sögn forsetaskrifstofu landsins. Hefur Júrí Jekhanúróv, héraðsstjóri í Dniepropetrovsk, verið skipaður forsætisráðherra til bráðabirgða í stað Júlíu Tímótsjenkó sem verið hefur helsti samstarfsmaður forsetans um langa hríð. Einnig hefur forsetinn ákveðið að víkja þjóðaröryggisráði landsins frá.

Þessi ákvörðun kemur í kjölfar uppsagna tveggja háttsettra samstarfsmanna forsetans en þeir sögðust ekki lengur geta þolað þá spillingu, sem þrifist í úkraínska stjórnkerfinu. Í morgun sagði einnig Petro Porotsjenkó, yfirmaður öryggis- og varnarmálaráðs landsins, af sér en hann er einn þeirra sem sakaður hefur verið um spillingu.

Jústsjenko sagði í kjölfarið, að hann vildi að þau Tímótsjenkó og Porotsjenkó væru áfram í ríkisstjórn en þau yrðu þá að geta unnið saman.

Jústsjenko naut mikilla vinsælda fyrst eftir að hann komst til valda í byrjun ársins, en á síðustu vikum hefur hann sætt sívaxandi gagnrýni fyrir það hve hægt gengur að koma á umbótum í stjórnkerfi og efnahagslífi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert