Þriðjungur Breta telur nauðganir að hluta til fórnarlömbunum að kenna

Þriðji hver Breti telur konur að hluta til ábyrgar fyrir því að þeim sé nauðgað, ef marka má niðurstöður breskrar könnunar sem gerð var fyrir mannréttindasamtökin Amnesty International. Þúsund Bretar tóku þátt í könnuninni sem leiddi einnig í ljós, að fjórði hver maður telur hluta sakarinnar liggja hjá konunni sé hún drukkin eða íklædd skjóllitlum fatnaði.

Samtökin telja þessar niðurstöður „sannarlega átakanlegar“ og að þær sýni að forvarnaraðgerðir bresku lögreglunnar gegn nauðgunum hafa ekki skilað árangri. Þær fela meðal annars í sér að láta þarfir fórnarlamba ganga fyrir, þegar nauðgun er kærð, og að greiða fyrir upptöku nauðgunarmála fyrir rétti. „Við erum staðráðin í því að brúa bilið milli sífjölgandi nauðgunarákæra og fárra sakfellinga,“ segir talsmaður samtakanna.

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að auki að Bretar vita lítið um hversu margar nauðganir væru framdar á ári í landinu. 96% töldu þær töluvert færri en þær í raun eru, en samkvæmt tölum lögreglu var 12.867 konum nauðgað í Bretlandi í fyrra. Lögreglan telur þó að aðeins 15% nauðgana séu kærðar til hennar. Einungis 6% nauðgunarákæra leiða til sakfellingar í Bretlandi.

Kate Allen, forstöðumaður höfuðstöðva Amnesty International í Lundúnum, segir könnunina varpa ljósi á „óhugnanleg viðhorf“ karla og kvenna til nauðgana. Ruth Hall, talsmaður samtakanna „Konur gegn nauðgun“(e. Women Against Rape), sakar dómsstóla um fordóma. „Þeir láta konur enn mæta fyrir rétt og bera þar vitni og rekja fyrri kynlífsreynslu þeirra. Það á að vera bannað. Þeim er svo kennt um það hvernig farið hafi fyrir þeim,“ segir Hall í viðtali við fréttavef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert