Kalifornía höfðar mál gegn bílaframleiðendum

Ríkissaksóknari Kaliforníuríkis segir útblástursmengun valda milljóna dala skaða
Ríkissaksóknari Kaliforníuríkis segir útblástursmengun valda milljóna dala skaða Reuters

Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn bílaframleiðendunum Ford, General Motors og Toyota auk þriggja annarra framleiðenda á þeim forsendum að gróðurhúsalofttegundir frá bílum sem fyrirtækin framleiða hafi kostað ríkið milljónir Bandaríkjadala.

Ríkissaksóknarinn Bill Lockyer segir málið vera það fyrsta þar sem bílaframleiðendur eru dregnir til ábyrgðar vegna skaða sem útblástur bíla veldur. Segir Lockyer gróðurhúsaáhrif valda miklum skaða nú þegar á efnahag, heilbrigði og landbúnað og að kostnaður vegna áhrifanna aukist sífellt.

Segir hann útblástursmengun frá bílum vera þann þátt sem mest auki mengunina á ári hverju og segir framleiðendur og stjórnvöld ekki hafa brugðist við sem skyldi.

Auk Ford, GM og Toyota stefnir Kaliforníuríki bandaríska hluta DaimlerChrysler, Honda og Nissan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert