155 fórust í flugslysi í Brasilíu

Staðfest var í nótt að 155 manns fórust í flugslysi yfir regnskógum Brasilíu um helgina en þar rákust saman Boeing 737 farþegaflugvél með 155 manns innanborðs og lítil einkaþota. Þetta er mannskæðasta flugslys í sögu Brasilíu.

Farþegaflugvélin hrapaði og tók langan tíma fyrir björgunarsveitir að brjóta sér leið gegnum frumskóginn að vélinni en þegar að var komið fannst enginn á lífi. Flugmanni litlu vélarinnar tókst hins vegar að lenda vélinni á nálægum herflugvelli og sakaði engan um borð.

Denise Abreu, yfirmaður brasilísku flugmálastjórnarinnar, sagði við þarlendar fréttastofur í nótt, að eftir að farið hefði verið yfir upplýsingar úr flugrita litlu vélarinnar væri hægt að staðfesta að flugvélarnar hefðu rekist saman.

Globo fréttastofan sagði í gær, að lögregla hefði yfirheyrt sjö manns, allt Bandaríkjamenn, sem voru um borð í einkaþotunni. Flugvélin var á leið til Bandaríkjanna og meðal farþeganna var Joe Sharkey, blaðamaður The New York Times. Farþegarnir sögðust hafa fundið að vélin tók kipp og síðan hefði flugmaðurinn tekið sjálfstýringuna af og lent vélinni.

The New York Times sagði, að Sharkey hefði sent konu sinni tölvupóst þar sem segir: „Hvorugur flugmannanna skilur hvernig 737 flugvél hafi getað lent á okkur án þess að sjá okkur."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert