Ósætti meðal foreldra í Árósum vegna mótmæla

Frá mótmælunum á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í gær.
Frá mótmælunum á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í gær. AP

Foreldrar mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði í skólamálum enn í Árósum og varna fólki inngöngu í leikskóla, en leikskólarnir hafa verið lokaðir í þrjár vikur. Sundurlyndis gætir nú hjá foreldrum, sem margir eru orðnir þreyttir á því að geta ekki sent börn sín í dagvistun. Óttast yfirvöld í Árósum að til ryskinga geti komið ef fram fer sem horfir. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende

Þá hafa sveitarfélaginu borist fyrirspurnir um að fá börn sín flutt á önnur dagvistunarheimili. Foreldrar sem ekki geta komið börnum sínum í vist eru sagðir örvæntingafullir, og hafa foreldrasamtökunum ,,Takið ábyrgð” (Tag ansvar) borist hótanir og hafa þau í kjölfarið dregið sig út úr mótmælunum og lokað vefsíðu sinni.

Rúmlega 20.000 manns tóku þátt í mótmælaaðgerðum í Danmörku í gær til að mótmæla niðurskurði í þjónustu sveitarfélaga við börn og gamalmenni. Um 10.000 manns, flestir þeirra kennarar, tóku þátt í aðgerðum í Kaupmannahöfn en önnur 10.000 mótmæltu í Árósum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert