Átök brutust út í höfuðborg Eistlands aðra nóttina í röð

Lögreglumenn sjást hér handtaka nokkra mótmælendur í miðborg Tallinn í …
Lögreglumenn sjást hér handtaka nokkra mótmælendur í miðborg Tallinn í nótt. AP

Yfir 300 manns voru handtekin og að minnsta kosti 10 manns slösuðust þegar óeirðir brutust út í Tallinn, höfuðborg Eistlands, aðra nóttina í röð. Lögreglumenn beittu táragasi og skutu gúmmíkúlum á mótmælendur sem voru að mótmæla því að styttu af rússneskum hermanni hafi verið fjarlægð var úr miðborg Tallinn. Mótmælendurnir eru flestir af rússnesku bergi brotnir.

Yfirvöld í Eistlandi segja að stríðsminjarnar séu tákn um hernám Sovétmanna í landinu á árum áður. Þeir sem vilja halda í stríðsminjarnar segja að þær minni á þær hetjur sem börðust gegn nasistum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Rússneskir embættismenn hafa sagt að maður sem lést í átökunum sem brutust út á fimmtudagskvöld hafi verið rússneskur ríkisborgari.

Fram kemur í yfirlýsingu frá rússneska utanríkisráðuneytinu að yfirvöld í Eistlandi hafi í fyrstu vísað því á bug að rússneskri ríkisborgara væru á meðal þeirra sem létust eða særðust.

Maðurinn sem lést bjó hinsvegar í Eistlandi. Yfirvöld í Eistlandi segja að annar mótmælandi hafi stungið manninn til bana og að lögreglan tengist á engan hátt dauðsfallinu, að því er segir á Fréttavef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert