Varað við því að N-Kórea verði tekin af hryðjuverkalista

Yfirvöld í Japana vöruðu Bandaríkjamenn við því í morgun að verða við kröfu yfirvalda í Norður-Kóreu um að landið verði tekið af lista yfir þau ríki sem styðji hryðjuverkastarfsemi og sögðu það geta spillt tilraunum þeirra til að fá frekari upplýsingar um Japana sem yfirvöld í Pyongyang létu ræna á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og stofnað öryggi þeirra í hættu.

"Ríkisstjórnin hefur miklar áhyggjur af öryggi þeirra og leggur mikla áherslu á að það verði tryggt,” sagði Kaoru Yosano, talsmaður japönsku stjórnarinnar, á blaðamannafundi í morgun. "Við viljum ekki að neitt verði gert sem geti haft áhrif á það mál.”

Yfirvöld í Norður-Kóreu lýstu því yfir í gær að bandarísk yfirvöld hefðu samþykkt að taka landið af listanum en talsmaður Bandaríkjastjórar sagði í morgun að Norður-Kóreumenn verði að taka fleiri skref í átt að lausn kjarnorkudeilunnar áður en það verði gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert