Ekkert miðar í baráttunni gegn reykingum unglinga

Íslendingar eru meðal fimm Evrópuþjóða þar sem dregið hefur meira en 25% úr reykingum þeirra sem eru 15 ára og eldri, að því er segir í frétt Reuters. Hin fjögur ríkin eru Finnland, Ítalía, Slóvenía og Svíþjóð. Þó svo að sumum Evrópuríkjum hafi tekist að draga úr reykingum fullorðinna þá hefur ekkert miðað í baráttunni gegn reykingum unglinga en einn af hverjum þremur evrópskum unglinum reykir, samkvæmt upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

Evrópuskýrsla um taumhald á reykingum, sem sett var saman fyrir fund WHO í Varsjá í Póllandi í næstu viku, samanstendur af gögnum um fjölda reykingamanna, áhrif á heilbrigði og stefnu stjórnvalda í reykingamálum. Þar kemur fram að 215 milljónir Evrópubúa, eldri en 15 ára, reykja reglulega og öflugri markaðssetningu tóbaksiðnaðarins er kennt um fjölgun reykingamanna meðal ungs fólks og fátækra í austurhluta Evrópu. Þá segir í skýrslunni að sérstakt áhyggjuefni sé að reykingar skuli hafa færst í vöxt meðal ungra kvenna í austurhluta Evrópu. Um 30% unglinga í Vestur og Austur-Evrópu á aldrinum 15-18 ára reykja og segir í skýrslunni að það sé áhyggjuefni sérstaklega með tilliti til afleiðinganna sem þetta muni hafa á heilbrigði. WHO telur að um 1,2 milljónir dauðsfalla í Evrópu á ári hverju megi rekja til sjúkdóma af völdum reykinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert