Allt að því 50 fórust í loftárásum á Basra í Írak

Bílalest bandaríska hersins ekur framhjá brennandi olíuleiðslum nærri borginni Basra …
Bílalest bandaríska hersins ekur framhjá brennandi olíuleiðslum nærri borginni Basra í gær. AP

Að minnsta kosti 50 manns, þar á meðal rússneskur ríkisborgari, eru sagðir hafa farist í loftárásum Breta og Bandaríkjamanna í suðurhluta hafnarborgarinnar Basra á laugardag, að sögn sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera. Fjölskylda, með tveggja ára barn, var meðal fórnarlamba árásanna. Þá greindi stöðin frá því að fjöldi manns hafi særst í árásunum.

Ekki liggur fyrir hvort hermenn séu meðal þeirra sem særðust. Mohammad al-Abdallah, sjónvarpsfréttamaður Al-Jazeera, greindi frá mannfalli í borginni eftir heimsókn á einn spítala. hann sagði að fyrstu tvo dagana hafi árásir beinst að útjaðri borgarinnar, en á laugardag hafi bandamenn látið sprengjur falla á borgina sjálfa.

Bandamenn eru sagðir gera tilraunir til þess að fá íraska hermenn að gefast upp með friðsamlegum hætti við borgina Basra, en svo virðist sem að hópar sérsveitarmanna berjist enn í kringum borgina. Hins vegar lítur út fyrir að almennir hermenn hafi yfirgefið Basra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert