Írakar sagðir hafa eytt efnavopnum nokkrum dögum fyrir stríðið

Bandarískur hermaður á varðbergi í Bagdad.
Bandarískur hermaður á varðbergi í Bagdad. AP

Íraskur vísindamaður, sem er sagður hafa starfað við efnavopnaáætlun íraskra stjórnvalda í rúmlega áratug, hefur greint bandaríska hernámsliðinu frá því að Írakar hafi eytt efnavopnum og búnaði fyrir notkun á lífefnavopnum nokkrum dögum áður en stríðið hófst, að því er fram kemur í netútgáfu New York Times í dag. Hann er einnig sagður hafa greint bandarískum vopnasérfræðingum frá því að Írakar hafi á laun sent óhefðbundin vopn og tæknibúnað til Sýrlands um miðjan 10. áratug 20. aldar. Þá er haft eftir vísindamanninum að Írakar hafi unnið með al-Qaeda-hryðjuverkasamtökunum.

Fram kemur í netútgáfu blaðsins að vísindamaðurinn hafi sagt Bandaríkjamönnum að Saddam Hussein hafi látið eyðileggja efni sem notuð voru til framleiðslu efnavona. Einnig hafi hlutar til slíkrar framleiðslu verið sendir til Sýrlands. Þá er Saddam sagður hafa skipað íröskum vísindamönnum að vinna að áætlun sem hafi verið hulin alþjóðlegum vopnaeftirlitsmönnum og bandarískum her.

Bandaríski herinn, sem vill ekki nafngreina vísindamanninn, telur að frásögn vísindamannsins sé áreiðanleg þar sem hann hafi vísað hernámsliðinu á efni sem notað hafi átt við framleiðslu á ólöglegum vopnum, sem bandaríska hernámsliðið leitar að í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert