Starfsnám áliðna tekið í gagnið við Verkmenntaskóla Austurlands

Vígslan fór fram í verkkennsluhúsi skólans.
Vígslan fór fram í verkkennsluhúsi skólans. Morgunblaðið/Kristín

Tveir samningar, sem snúa að starfsnámi áliðna við Verkmenntaskóla Austurlands í Fjarðabyggð, voru undirritaðir í dag. Annars vegar undirrituðu Helga M. Steinsson skólameistari og Þórir Ólafsson frá menntamálaráðuneytinu þróunarsamning skólans og menntamálaráðuneytisins. Í honum felst m.a. fimm milljón króna styrkur sem hugsaður er til að mæta vinnu við undirbúning verkefnisins.

Hins vegar undirrituðu Helga og Brian Fry hjá Alcoa samstarfssamning um uppbyggingu og þróun álnáms við skólann að fyrirmynd samskonar náms á vegum Alcoa, bæði í Kanada og Ástralíu. "Töluverð vinna er framundan við að staðfæra námið og aðlaga það íslenskum aðstæðum," segir í fréttatilkynningu. Í máli Helgu kom fram að auk þess að vera í góðu samstarfi við Alcoa hafi fulltrúar frá fyrirtækinu Bectel, sem sér um byggingu álversins, sýnt skólanum áhuga. Þeir hafa meðal annars boðið skólanum að þjálfa nemendur hans í iðnnámi á meðan á byggingu álversins stendur, auk þess sem rætt hefur verið um endurmenntun starfmanna fyrirtækisins.

Fyrstu nemendurnir hófu nám á starfsbraut áliðna við Verkmenntaskóla Austurlands í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert