5½ ár í fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur

Rúmlega fertugur maður var í morgun dæmdur í hálft sjötta ár í fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni í 11-12 ár, eða frá árinu 1988 eða 1989 er hún var 5-6 ára og fram í desember árið 2000 er hún var 18 ára. Einn þriggja dómara Héraðsdóms skilaði séráliti og vildi sýkna manninn.

Maðurinn var ákærður fyrir nær dagleg brot gegn stjúpdóttur sinni, fæddri 1983. Einnig var hann ákærður fyrir brot gagnvart stúlku fæddri 1984 er hún var 12 ára en þótt dómurum þætti hún samkvæm í framburði sínum og trúverðug, voru engin önnur sönnunargögn til að styrkja framburð hennar. Gegn eindreginni neitun ákærða var hann sýknaður af því broti.

Brotin gegn stjúpdóttur sinni framdi maðurinn á heimili þeirra og öðrum dvalarstöðum, s.s. á heimili föður hans, í bifreið hans og vinnuvélum sem hann hafði lagt á afviknum stöðum í Reykjavík, á Álftanesi og í Skagafirði, í fjallgöngum á Úlfarsfelli, Esju og Akrafjalli, og á hótelherbergjum í ferðum til útlanda.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir í niðurstöðum sínum að maðurinn hafi gerst sekur um sérlega grófa kynferðislega misnotkun gagnvart stjúpdóttur sinni. Við ákvörðun refsingar bæri að líta til þess að hann misnotaði freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir hennar og hafi með því brugðist trausti hennar og trúnaðarskyldum sínum. Hafi brotin haft djúpstæð áhrif á líf stúlkunnar og sálarheill eins og honum hafi mátt vera ljóst. Þótti refsing hans því hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og sex mánuði.

Í dómnum kemur fram að maðurinn virti engin mörk um einkalíf stúlkunnar eftir að hún varð eldri og fór að mati dómsins langt út fyrir það sem talist getur eðlilegt samband og samskipti föður og dóttur.

Hinn dæmdi hefur ítrekað gengist undir sátt og hlotið dóma vegna umferðarlagabrota. Þá hefur hann hlotið dóma fyrir hegningarlagabrot, s.s. þjófnað, fjársvik og nytjastuld. Síðast hlaut hann dóm í fyrrasumar 60 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár.

Einn þriggja dómara Héraðsdóms skilaði séráliti og þar segir að ekki hafi verið færð fram sönnun um sekt hans sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum og beri því að sýkna hann af þeim brotum sem hann væri sakaður um gegn stjúpdóttur sinni.

Segir dómarinn að í málinu njóti ekki við beinna sannana um sekt mannsins, hvorki með vitnum eða skjölum. Flestir hafi framburðir vitna fjallað um atvik, sem leitt gætu líkur að því, að maðurinn hafi framið þau brot, sem honum voru gefin að sök, en einnig hafi komið fyrir dóm vitni, sem ekki vissu nein merki þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert