Stjórn Clintons vissi um þjóðarmorðið í Rúanda

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, og stjórn hans, vissu að verið var að fremja þjóðarmorð í Rúanda vorið 1994, en kusu að leyna upplýsingunum til þess að réttlæta aðgerðaleysi í málinu, að því er breska blaðið Guardian skýrir frá í dag. Þetta sýna leyniskjöl, sem ekki hafa verið gerð opinber fyrr en nú.

Háttsettir embættismenn notuðu hugtakið þjóðarmorð til að lýsa því sem var að gerast í Rúanda, 16 dögum eftir að óöldin reið yfir þar í landi, en ákveðið var að skýra ekki frá því opinberlega, því forsetinn hafði þegar ákveðið að hafa engin afskipti af málinu.

Hugtakið þjóðarmorð, var fyrst notað af Bandaríkjastjórn 16. maí um vorið og jafnvel þá var reynt að draga úr atburðum, en sagt var að hútúar hefðu uppi aðgerðir sem minntu á þjóðarmorð.

Leyniskýrslur sem voru gerðar opinberar á grundvelli laga um upplýsingafrelsi, sýna að ríkisstjórninni, og að öllum líkindum forsetanum, hafði verið gert kunnugt um að til stæði að útrýma öllum tútsum, áður en morðaldan náði hámarki.

Dauðasveitir hútúa myrtu um 800.000 tútsa og hófsama hútúa í Rúanda á þremur mánuðum, en þjóðarmorðið hófst í apríl 1994. Vissu bandarísk yfirvöld hvernig mál stóðu, á öllum stigum þess. Skjölin ganga þvert á fullyrðingar Clintons og háttsettra embættismanna úr stjórn hans, að þeir hafi ekki gert sér fulla grein fyrir umfangi þjóðarmorðsins og því, hversu skamman tíma tók að myrða svo margt fólk.

Óttuðust atburði á borð við þá sem gerðust í Sómalíu

Alison des Forges, starfsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, segir að Bandaríkjastjórn hafi óttast, að skýrði hún frá stöðu mála, yrði hún krafin um aðgerðir í málinu, en stjórnin hafi ekki viljað blanda sér í það.

Menn hafi ekki viljað eiga hættu á að endurtaka það sem átti sér stað í afskiptum Bandaríkjanna í Sómalíu, þegar bandarískir hermenn drógust inn í baradaga í landinu.

Einnig hafi Bandaríkjastjórn metið það svo, að hún ætti engra hagsmuna að gæta í Rúanda, sem er lítið ríki í mið-Afríku, snautt af auðlindum og hefur ekkert hernaðarlegt gildi fyrir Bandríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert