Bandarískir hermenn njóta ekki friðhelgi

Bandaríkin hafa gefist upp á að fá hermenn sína undanþegna saksókn af hálfu hins nýja alþjóðaglæpadómstóls, að því er fram kemur á vefsíðu BBC. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), hafði þegar varað öryggisráð SÞ við að breyta viðmiðum sínum, meðal annars vegna þeirra atburða sem komið hafa fram í dagsljósið um misþyrmingar fangavarða á föngum í Írak.

Yfirvöld í Washington drógu beiðni sína til baka eftir að ljóst varð að hún hlyti ekki nægilegt fylgi. Síðastliðin tvö ár hefur bandaríski herinn fylgt sérstökum öryggisviðmiðum og talið sig geta varist ásökunum um slæma hegðun. „Bandaríkin hafa ákveðið að fylgja ekki hugmyndinni frekar eftir til að koma í veg fyrir frekari klofning,“ segir James Cunningham, aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Bandaríkin hafa áður hótað því að beita neitunarvaldi gegn friðargæslustörfum fengju hermenn þeirra ekki undanþágu frá lögsókn af hálfu alþjóða glæpadómstólsins. Bandaríkin reyndu að koma til móts við öryggisráðið á þriðjudag með því að biðja um árs framlengingu á friðhelginni. Þeirri tillögu var hafnað af 9 þjóðum af 15.

Annan sagði fyrr í þessum mánuði „að með slíkri undantekningu væri verið að gera lítið úr valdi Sameinuðu þjóðanna til að setja slík lög.“ Hann sagði ennfremur að síðastliðin tvö ár hefði hann talað gegn slíkri undantekningu og slíkt væri allra síst við hæfi nú á tímum í ljósi atburða í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert