Hart deilt um öryggismál í lokakappræðum Bush og Kerrys

Kerry og Bush takast í hendur áður en lokakappræður þeirra …
Kerry og Bush takast í hendur áður en lokakappræður þeirra hófust í gærkvöldi. AP

Lokakappræður bandarísku forsetaframbjóðendanna, George W. Bush, Bandaríkjaforseta, og John Kerrys, öldungadeildarþingmanns, fóru fram í Ariszona í gær. Þau mál sem efst voru á baugi í kappræðunum voru stríðið í Írak, hryðjuverkstarfsemi, heilbrigðisþjónustan og atvinnumál. Reyndu báðir frambjóðendur að ná forskoti á keppinautinn með framgöngu sinni í kappræðunum, en mikið jafnræði er með þeim, nú þegar 19 dagar eru til kosninganna.

Í kappræðunum sakaði Bush Kerry um linkind gagnvart hryðjuverkastarfsemi, sagði hann vilja hækka skatta og auka umfang ríkisrekinnar heilbrigðisþjónustu. Þá sagði hann Kerry vera „lengst til vinstri“ í bandarískum stjórnmálum.

Kerry átaldi hins vegar forsetann fyrir að hafa látið hryðjuverkamanninn Osama bin Laden komast undan, vegna þess að hann hefði einblínt á stríðsreksturinn í Írak. Sagði hann Bush hafa brugðist millistéttarfólki í Bandaríkjunum og fremur kosið að lækka skatta þeirra sem auðugastir væru. Þá sagði hann að Bush hefði ekki tryggt öryggi á landamærum Bandaríkjanna.

Frá upphafi kappræðnanna í gær, lögðu frambjóðendurnir megináherslu á að ræða það mál sem orðið hefur helsta kosningamálið í forsetakosningunum í ár. Snýst málið um það hvor frambjóðandinn muni skila betri árangri í stríðinu gegn hryðjuverkum, sem Bush lýsti yfir eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin, 11. september 2001.

Kerry sagði að Bush hefði „þrýst þjóðinni út í stríðsaðgerðir“ og sakaði hann um að „ýta bandamönnum frá sér.“ „Við erum ekki eins örugg og við teljum okkur vera,“ sagði Kerry.

Jafnræði með keppinautunum

Skoðanakannanir undanfarið sýna að keppnin milli frambjóðendanna er mjög jöfn.

Það gæti þó breyst, en einhverjar þeirra kannana sem gerðar voru rétt eftir kappræðurnar bentu til þess að Kerry hefði staðið sig betur en Bush í þeim.

52% þeirra sem þátt tóku í slíkri könnun hjá CNN sögðu að Kerry hefði staðið sig betur, en 39% töldu að Bush hefði komið betur út úr kappræðunum. Niðurstaða könnunar ABC sjónvarpsstöðvarinnar var að 42% töldu Kerry hafa staðið sig betur en 41% að Bush hefði haft vinninginn. Í könnun sjónvarpsstöðvarinnar CBS sögðu 39% að Kerry hefði sigrað, 25% að Bush hefði sigrað og 25% að frambjóðendurnir hefðu staðið sig jafn vel. Skekkjumörk í þessum könnunum eru 4,5-7%.

Eiginkona Kerrys, Teresa Heinz-Kerry, fylgdist með kappræðunum ásamt syni sínum, …
Eiginkona Kerrys, Teresa Heinz-Kerry, fylgdist með kappræðunum ásamt syni sínum, Andre Heinz, og leikaranum Michael J. Fox, sem styður Kerry. AP
Bush ásamt Lauru, eiginkonu sinni, og Jennu dóttur þeirra, eftir …
Bush ásamt Lauru, eiginkonu sinni, og Jennu dóttur þeirra, eftir kappræðurnar í gærkvöldi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert