Fiskneysla af heilsufarsástæðum talin geta ógnað fiskistofnum

Þorskur á skoskum fiskmarkaði.
Þorskur á skoskum fiskmarkaði. mbl.is

Hverfa ber frá því ráði heilbrigðisyfirvalda að hvetja fólk til að neyta fisks tvisvar í viku vegna þess að aukin fiskneysla gæti gert endanlega úti um fiskistofna sem standa tæpt.

Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu bresks ráðgjafahóps er birt verður þar í landi á morgun. Hópurinn setur fram 60 tillögur um „róttækar breytingar“ á stefnu breskra stjórnvalda, eftir eins og hálfs árs athugun á ofveiði.

The Daily Telegraph greinir frá þessu í dag.

Það er Hið konunglega umhverfismengunarráð sem leggur skýrsluna fram. Formaður þess er Sir Tom Blundell, lífefnafræðingur við Cambridge-háskóla. Hann segir að a.m.k. 30 prósent hafsvæðisins innan 200 mílna lögsögu Bretlands ætti að friða algerlega til að fiskistofnar geti styrkst.

Hvað fiskneyslu varðar hvetur ráðið til þess að rannsakaðar verði í þaula afleiðingar tilmæla breska manneldisráðsins um að fisks sé neytt tvisvar í viku og sé annar skammturinn feitur fiskur, eins og til dæmis lax.

Þessu til grundvallar leggur ráðið þá skoðun vísindamanna að sandáll og lýsa séu ofveidd vegna þess að þær tegundir séu notaðar í fóður á fiskeldisstöðvum.

Þess er vænst að nú í vikunni tilkynni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að virt verði að vettugi - þriðja árið í röð - ráðgjöf vísindamanna um að þorskveiðar verði bannaðar í Norðursjó, Írlandshafi og vestur af Skotlandi til að stofninn geti styrkst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert