Danforth gagnrýnir Repúblikanaflokkinn harðlega

John Danforth ásamt Bush Bandaríkjaforseta.
John Danforth ásamt Bush Bandaríkjaforseta. AP

John Danforth, einn virtasti flokksmaður bandaríska Repúblikanaflokksins gagnrýndi flokk sinn harðlega í pistli sem hann ritaði í New York Times í gær. Þar segir hann að Repúblikanaflokkurinn sé orðinn handbendi hægrisinnaðra heittrúarmanna.

Danforth, sem er fyrrum þingmaður og sendiherra flokksins hjá Sameinuðu þjóðunum segir meðal annars í pistli sínum: „Repúblikanar hafa breytt flokki okkar í stjórnmálaarm kristilegra íhaldsmanna.“

Mál heilasködduðu konunnar Terri Schiavo er eitt helsta umræðuefnið í pistli Danforth og gagnrýnir hann bandaríska ráðamenn harðlega fyrir afskipti sín af því máli. Schiavo liggur nú banaleguna eftir að hætt var að gefa henni næringu í æð líkt og gert hefur verið undanfarin 15 ár.

Málið hefur valdið klofningi meðal hægrimanna í Bandaríkjunum. Í síðstu viku leiddi könnun CBS sjónvarpsstöðvarinnar í ljós að 82% Bandaríkjamanna eru mótfallnir tilraunum George Bush, forseta og þingsins, til þess að grípa inn í málið í því skyni að lengja líf Schiavo í andstöðu við vilja eiginmanns hennar.

Í grein sinni segir Danforth að tilraunir repúblikana til þess að lengja líf Schiavo brjóti gegn grundvallarstefnu flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert