Davíð hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 5295 daga

Davíð Oddsson ásamt samstarfsmönnum sínum á fundi þingflokks og miðstjórnar …
Davíð Oddsson ásamt samstarfsmönnum sínum á fundi þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í dag þar sem Davíð tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér til formennsku í flokknum áfram. mbl.is/Golli

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins í 5295 daga en hann var kjörinn formaður á landsfundi flokksins 10. mars 1991 eða í 14 og hálft ár. Aðeins Ólafur Thors hefur verið lengur formaður flokksins eða í 9517 daga á árunum 1934 til 1961. Davíð tilkynnti í dag, að hann muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs á landsfundi flokksins sem haldinn verður 13. til 16. október.

Davíð hyggst láta af þingmennsku og ráðherraembætti 27. september. Þá tekur Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, við embætti utanríkisráðherra. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra verður fjármálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sjávarút­vegs­ráð­herra. Ásta Möller varaþingmaður tekur sæti á Alþingi. Davíð hefur verið þingmaður Reykvíkinga frá 30. apríl 1991, forsætisráðherra 1991-2004 og utanríkisráðherra frá 15. september 2004.

Sjö menn hafa verið formenn Sjálfstæðisflokksins frá því hann var stofnaður 1929. Jón Þorláksson var formaður frá 25. maí það ár til 2. október 1934 eða í 1681 dag. Ólafur Thors var formaður frá 2. október 1934 til 22. október 1961 eða í 9517 dag. Bjarni Benediktsson var formaður frá 22. október 1961 til 10. júlí 1970 eða í 3183 daga, Jóhann Hafstein var formaður frá 10. júlí 1970 til 12. október 1973 eða í 825 daga. Geir Hallgrímsson var formaður frá 12. október 1973 til 6. nóvember 1983 eða í 3677 daga. Þorsteinn Pálsson var formaður frá 6. nóvember 1983 til 10. mars 1991 eða í 2.681 dag og Davíð Oddsson hefur gegnt formennskunni síðan.

Davíð Oddsson hefur lengst allra gegnt embætti forsætisráðherra. 18. júlí 2001 jafnaði hann met Hermanns Jónassonar en bætti það síðan um rúm þrjú ár og var því forsætisráðherra Íslands í rúm 13 ár. Samráðherrar Davíðs á þessum árum hafa verið 30 talsins.

Davíð Oddsson fæddist í Reykjavík 17. janúar 1948, sonur Odds Ólafssonar, læknis (fæddur 1914, dáinn 1977) og Ingibjargar Kristínar Lúðvíksdóttur, bankaritara (fædd 1922). Kona Davíðs er Ástríður Thorarensen hjúkrunarfræðingur, fædd 20. október 1951. Foreldrar hennar eru Þorsteinn Skúlason Thorarensen og kona hans, Una Thoraren­sen, fædd Petersen. Davíð og Ástríður eiga einn son, Þorstein, lögfræðing, fæddan 1971.

Davíð lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1976. Davíð var inspector scolae í MR 1969-1970. Hann sat í stjórn Stúdentafélags Háskóla Íslands 1970-1973 og var formaður þess 1973. Í stjórn Sam­bands ungra sjálfstæðismanna 1973-1975 og í stjórn Varðbergs 1973-1977. Hann hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1979, var varaformaður flokksins 1989-1991 og hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1991.

Davíð var leikhúsritari Leikfélags Reykjavíkur 1970-1972, þingfréttaritari Morgun­blaðsins 1973-1974, starfsmaður Almenna bókafélagsins 1975 og kenndi verslunarrétt við Verzlunarskóla Íslands 1976-1977. Hann var skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykja­víkur 1976-1978 og framkvæmdastjóri þess 1978-1982. Davíð var formaður Æsku­lýðs­ráðs Reykjavíkur 1974-1978, sat í fræðsluráði Reykjavíkur 1974-1982 og í stjórn Kjarvals­staða 1974-1982, þar af varaformaður til 1978. Hann sat í borgarstjórn 1974-1994, sat í borgarráði 1980-1991 og var formaður þess 1982-1991. Í byggingarnefnd Borgarleikhússins 1975-1979 og formaður nefndarinnar frá 1982 til starfsloka 1992. Formaður framkvæmdastjórnar listahátíðar í Reykjavík 1976-1978, í framkvæmdaráði Reykjavíkurborgar 1979-1982 og formaður dómnefndar um samkeppni vegna byggingar ráðhúss í Reykjavík 1986-1987. Þá var hann formaður stjórnar Síldar- og fiski­mjöls­verk­smiðjunnar Kletts 1986-1988 og í stjórn Landsvirkjunar 1983-1991. Davíð var borgar­stjóri í Reykjavík 1982-1991, forsætisráðherra 1991-2004, utanríkisráðherra frá 15. september 2004 og hefur verið þingmaður Reykvíkinga frá 30. apríl 1991.

Davíð samdi ritið Sjálfstæðisstefnuna 1981. Þá þýddi hann árið 1973 bók Anders Küng: Eistland, smáþjóð undir oki erlends valds. Davíð hefur samið þrjú leikrit fyrir sjónvarp. Þau eru Róbert Elíasson kemur heim frá útlöndum frá 1977, Kusk á hvítflibbann frá 1981 og Allt gott frá 1992. Einnig hefur hann með öðrum samið tvö verk fyrir Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið og hafði umsjón með fjölmörgum útvarpsþáttum fyrir Ríkisútvarpið 1968-1975, þar á meðal Útvarpi Matthildi. Í nóvember 1997 kom út smásagnasafnið Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar eftir Davíð og árið 2002 kom út nýtt smásagnasafn, Stolið frá höfundi stafrófsins. Davíð á ýmis áhugamál önnur en ritstörf, svo sem brids, skógrækt og stangveiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert